TRYGGINGAMIÐSTÖÐIN keypti í gær 3% hlut í Íslandsbanka að nafnverði 300 milljónir. Viðskiptin fóru fram í einu lagi í gær á genginu 3,95 og er kaupverðið því 1.185 milljónir króna.
TRYGGINGAMIÐSTÖÐIN keypti í gær 3% hlut í Íslandsbanka að nafnverði 300 milljónir. Viðskiptin fóru fram í einu lagi í gær á genginu 3,95 og er kaupverðið því 1.185 milljónir króna. Eignarhlutur Tryggingamiðstöðvarinnar í Íslandsbanka fyrir þessi viðskipti nam 1,31% en nemur 4,31% eftir viðskiptin.

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Tryggingamiðstöðvarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið að ekki séu áform um að Tryggingamiðstöðin auki enn hlut sinn í Íslandsbanka en félagið verður fjórði stærsti hluthafinn í Íslandsbanka við kaupin. "Við höfum skoðað þetta um nokkurn tíma en það sem fyrst og fremst liggur að baki er að eignast verðmætan hlut sem við teljum að sé góð fjárfesting. Við höfum mikla trú á Íslandsbanka. Tryggingamiðstöðin fjárfestir í traustum undirstöðufyrirtækjum, fyrst og fremst í sjávarútvegi, en við höfum mikla trú á að þetta sé verðmæt og góð eign. Að mínu mati er hagstætt að kaupa í traustum undirstöðufyrirtækjum um þessar mundir," segir Hreinn.

Mikil viðskipti hafa átt sér stað með bréf Íslandsbanka allt frá 21. nóvember sl. þegar viðskiptin námu 1.547 milljónum króna. 23. nóvember námu þau 1,2 milljörðum og í gær voru heildarviðskipti með bréf Íslandsbanka fyrir 1.281.212 milljónir króna. Lokagengið 3,92.

Á þessu tímabili hafa viðskiptin þó ekki farið yfir flöggunarskyld mörk samkvæmt reglum Verðbréfaþings Íslands, þ.e. 5%. Svo var ekki heldur í gær. En að sögn Finns Sveinbjörnssonar, framkvæmdastjóra VÞÍ, þótti þó rétt að birta frétt um þessi viðskipti þar sem um stór viðskipti var að ræða og þau talin á mörkum þess að vera innherjaviðskipti. Finnur segir að VÞÍ líti þó ekki svo á að viðskiptin séu innherjaviðskipti. Nöfn viðkomandi innherja í félaginu voru birt með fréttinni í kerfi VÞÍ, þ.e. Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarmanns í báðum félögum, og Gunnars Felixsonar, forstjóra TM og varamanns í bankaráði Íslandsbanka.

Þá jók Íslandsbanki-FBA eignarhlut sinn í Baugi í gær í 10,15% með því að kaupa hlutabréf að nafnvirði 5.000.000 í félaginu. Eignarhlutur bankans í Baugi er því 172.186.775 að nafnvirði, en var áður 9.86% eða kr. 167.186.775 að nafnvirði. Af 10,15% eignarhlutnum hafa kr. 104.939.281 að nafnvirði eða 6,19% verið seld framvirkt.