Kerstin Ekman
Kerstin Ekman
eftir Kerstin Ekman. Sverrir Hólmarsson þýddi. Prentun Oddi. 395 síður - Mál og menning 2001.
KERSTIIN Ekman, höfundur Atburða við vatn, er meðal kunnari og vinsælli skáldsagnahöfunda Svía.

Í upphafi ritaði hún spennusögur en sneri sér smám saman að alvarlegri skáldsagnagerð. Engu að síður hefur hún tekið með sér ýmsar aðferðir spennusagnahöfundarins.

Það er urmull persóna í Miskunnsemi Guðs. Stundum liggur við að það persónusafn sé yfirdrifið.

Hillevi kemur frá Uppsölum. Hún gerist ung ljósmóðir á fjarlægum stað í Norður-Svíþjóð, í Lappabyggðum þar sem gamli tíminn ræður ríkjum og lífið er mjög frumstætt. Hún býr í senn yfir fágun og grófleika eins og fljótlega kemur fram þegar hún nýtur fylgdar heimamanns þangað sem hún á að starfa.

Strax er lesandinn leiddur inn í heim þjóðtrúar og ógnar þar sem nátúruöflin takast heiftarlega á.

Miskunnsemi Guðs er breið skáldsaga með miklu frásagnarefni. Fyrirhuguð eru tvö bindi í viðbót. Í þessu fyrsta bindi segir frá Lappabyggðunum af mestri sannfæringu en sögusviðið er líka Þýskaland millistríðsáranna, listamannalíf þar og undanfari síðari heimsstyrjaldar.

Þótt dauflegra sé yfir Þýskalandshlutanum í bókinni verður ekkert fullyrt fyrr en verkið liggur fyrir í heild. Það er að minnsta kosti vel gert grein fyrir uppruna listamannsins unga, Elis, sem sprottinn er upp úr eymd frumstæðs samfélags Lappanna og úr fjötrum berkla, eiginlega kraftaverk að hann skuli lifa.

Hillevi birtast hugsanir sem annars hefðu aldrei verið hugsaðar þegar hún situr við hlið fylgdarmanns síns, kúsksins. Hann situr nálægt henni, fætur þeirra snertast. Hvað var hann að hugsa: "Það var eins og hann grunaði að hún væri manneskja með fágaða hlið og grófa. Það fágaða við hana var á ytra borðinu, taldi Eugénie frænka og var undir niðri hrædd um að eitthvað gróft mundi skjóta upp kollinum."

Svo fer að Hillevi dregst að hinum ruddalega kúski, Trond Halvorsen, og giftist honum þrátt fyrir ástarævintýri með prestinum unga, Edvard Nolin. Trond er ímynd Lappabyggðanna gæddur frumkrafti og mátulegri dul.

Frásögnin nærist á þjóðtrú og dularfullum atburðum fortíðarinnar og sveiflast á milli hennar og raunveruleikans sem Ekman lýsir í anda samfélagsrýni. Aðferð hennar tekur mið af örlagasögu Kristin, öðru nafni Risten, sem segir söguna.

Lesandinn fær að kynnast starfi ljósmóðurinar Hillevi Lýsingar á meðgöngu og fæðingum eru vægast sagt mergjaðar og nákvæmar og gera það að hið afskekkta sögusvið lifnar. Stundum sameinast nöturleiki mannlegrar tilveru og órar hugans svo að úr verður eftirminnilegur skáldskapur.

Í miðju frásagnarinnar er Svartvattnet, geigvænlegt og órætt.

Kerstin Ekman tekst á mjög myndrænan hátt að draga upp mynd umhverfisins og skilja um leið eitthvað eftir handa ímyndunarafli lesandans.

Sverrir Hólmarson þýðir þessa bók af vandvirkni og gerir hana mjög læsilega í þýðingunni. Hann nýtur aðstoðar Böðvars Guðmundssonar sem þýðir bundið mál.

Sverrir Hólmarsson lést 6. september sl. Hann var afkastamikill þýðandi og verður eftirminnilegastur fyrir ljóðaþýðingar sínar, ekki síst Auða landið eftir T. S. Eliot.

Jóhann Hjálmarsson