[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atli Ingólfsson: Ma la melodia. Snorri Sigfús Birgisson: Portrett 5. David Liptak: Shadower. Wayne Siegel: Jackdaw. Snorri Sigfús Birgisson, píanó; Hildigunnur Halldórsdóttir, fiðla; Steef van Osterhout, slagverk; Guðni Franzson, bassaklarínett. Sunnudaginn 2. desember kl. 17.
Á ÞRIÐJU tónleikum af yfirstandandi sex úr röð Caput-manna í Hafnarhúsi á sunnudag tileinkaðri tónlistarkennslu á Íslandi átti m.a. að frumflytja "Spring Chicken" eftir Hauk Tómasson, en það féll niður af óviðráðanlegum ástæðum. Tæpast mátti kalla aðsóknina mikla, en allt er í heiminum afstætt og þættu 30 áheyrendur víða prýðileg mæting á nútíma listmúsík, jafnvel í margfalt stærra þjóðfélagi. Hitt er svo annað mál hvort vekja mætti ekki aukinn áhuga með e.k. "spjalltónleikum" öðru hvoru þar sem hlustendur kæmust í talsamband við spilara og höfunda um verkin. Á tímum þegar jafnvel kliðmýksta klassíkin á í vök að verjast, veitir ekki af aukinni umræðu um tónlistina sem koma skal.

Einhvern veginn á þeim nótum varð undirrituðum hugsað, þegar hann brýndi eyrun fyrir fyrstu framúrstefnuátök kvöldsins. En hafi nútíminn verið trunta, var eins og blessuð skepnan skildi Skúla bæn. Píanóverkið "Ma la melodia" eftir þann venjulega harðnjörvaða nútímatónhöfund Atla Ingólfsson, sem skv. prógrammi var tileinkað Sigurði Guðmundssyni listamanni og sagt samið kringum nóturnar B-ES-E-F-A, vitnandi í ljóðlínustrófu eftir Pier Paolo Pasolini ("en laglínan neyðir hjartað og hugann / að hafa völsann að örlaganaut") reyndist nefnilega allt annað en raðtæknilega hljómandi umgjörðin, að maður segi ekki undangengið orðspor tónskáldsins, gaf fyrirheit um. Þvert á móti kvað við úr slaghörpunni hárómantísk prelúdía, stundum syngjandi ljóðræn, stundum dramatísk, í þvílíkri "grandissimo brillante" útfærslu að minnti helzt á ef ekki samtímamenn Chopins, þá a.m.k. á eldheitan Chopin-aðdáanda meðal seinni tíma píanóhöfunda. Endurtekin hlustun hefði leitt það betur í ljós, en ekki skal efað að ókönnuðu að ofangetin tónaröð hafi, þrátt fyrir ytri píanóljónastíl 19. aldar, gengið sem rauður þráður gegnum verkið.

Í því sambandi rifjaðist ósjálfrátt upp athugasemd snillingsins frá Varsjá við vindlareykjandi ástmey sína, "Guð má vita hversu margar dýrlegar prelúdíur hafi horfið að eilífu í deshús yður!" - hvort sem nú sé sönn eða login. En hvað um það, verkið var glæsilega samið og ekki síður glæsilega flutt af Snorra Sigfúsi Birgissyni, sem virtist hafa lagt mikla alúð við undirbúninginn. Settu annars aðgerðarlausir handhafar bassaklarínetts, fiðlu og bogastrokins víbrafóns síðan sparlegan endapunkt með sameiginlegum þríhljómi á lokanótunni. Sem e.t.v. var jafnframt til marks um ákveðinn lokapunkt óheftrar framsækni, þegar gripið er til fornra stílbragða í nýjungaleit. Vissulega hefur stundum hvarflað að manni hvort ýkja mörg samtímatónskáld myndu ráða við stíl gömlu meistaranna í slíkri "endurfyrningu" ef á yrði látið reyna. Ekki varð þó annað heyrt í fljótu bragði en að Atli Ingólfsson hefði staðizt þá sjálfskipuðu prófraun með glans.

Svæsnari andstæðu við óvæntu hárómantík Atla var trauðla hægt að hugsa sér en með Portrett 5 eftir Snorra Sigfús. Engar fylgdu vísbendingar í tónleikaskrá um efni og tilurð, þótt verkið væri sagt hluti af 7 portretta píanóbálki hljóðrituðum af höfundi og gefnum út af Smekkleysu árið 1998 en á prenti í vor sem leið. Aftur á móti mátti skilja af tónleikaskrá frá tónleikum Snorra í Norræna húsinu í apríl 1998 þar sem frumflutt var Portrett nr. 4, að með portrettum þessum væri verið að "lýsa" ónafngreindum persónum, væntanlega úr vina- og kunningjahópi tónskáldsins. Því miður var umræddur hljómdiskur ekki tiltækur í fórum undirritaðs til nánari athugunar, en af slitróttri áferð verksins og spunakenndri, nærri samhengislausri framvindu mátti eftir fyrstu heyrn helzt sjá fyrir sér hviklynda skapmanneskju sem erfitt væri að ráða í, þrátt fyrir hlutfallslega yfirvegað niðurlag.

Öllu aðgengilegra reyndist fimmþætt verk hins bandaríska Davids Liptaks, Shadower fyrir fiðlu og slagverk sem Hildigunnur Halldórsdóttir og Steef van Osterhout fluttu af hrífandi nákvæmum nettleika. Yfirbragðið var að mestu mínímalískt, en samt furðufjölbreytt að blæ; stundum dreymandi lýrískt, víða drífandi rytmískt og ekki laust við glettni eins og í lokaþættinum, sem minnti mann á súrrealíska "troiku"-sleðaferð með nístandi treblakkahófahöggum.

Eftir bandarísk-danska tónskáldið Wayne Siegel, forstöðumann Sónólógísku stofnunarinnar í Kaupmannahöfn, lék að lokum Guðni Franzson á bassaklarínett - á móti hljóðrás af geisladiski - Jackdaw ("Dvergkráka") frá 1995. Þrátt fyrir svolítið poppað tónmál var mikil ferð og flug yfir þessu þrekmikla verki í þrálátt skarandi krossrytmum sem Guðni lék af tvístígandi virtúósu kappi, unz brotið var upp með liggjandi drunga-rómantískum pedal-kafla næst fyrir iðandi niðurlagshlutann í stíl við upphafið. Sannarlega hressilegur endir á óvenjufjölbreyttum nútímatónleikum, sem hefðu átt skilda meiri athygli en raun bar vitni.

Ríkarður Ö. Pálsson