AÐ mati Lyfjahóps Samtaka verslunarinnar er tilhæfulaust að bendla markaðsstarf á Íslandi sérstaklega við lyfjaverð, enda séu það yfirvöld sem ákveða hámarksverð lyfja á Íslandi en ekki lyfjafyrirtækin. Þetta kemur m.a.
AÐ mati Lyfjahóps Samtaka verslunarinnar er tilhæfulaust að bendla markaðsstarf á Íslandi sérstaklega við lyfjaverð, enda séu það yfirvöld sem ákveða hámarksverð lyfja á Íslandi en ekki lyfjafyrirtækin. Þetta kemur m.a. fram í bréfi Lyfjahóps SV til Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, alþingismanns Samfylkingarinnar, þar sem m.a. er svarað staðhæfingu hennar um að meira fé sé varið í markaðssetningu lyfja en í rannsóknir og þetta fari óhjákvæmilega út í lyfjaverðið.

Í bréfinu til þingmannsins segir einnig: "Því fer fjarri að hlutfall kostnaðar við markaðssetningu á móti kostnaði við rannsóknir og þróun sé hærra hjá lyfjafyrirtækjum en gengur og gerist meðal fyrirtækja almennt í samfélaginu. Þvert á móti ver engin starfsgrein jafnháu hlutfalli tekna til rannsókna og þróunar." Og síðar kemur fram að hámarksverð lyfja í heildsölu sem Tryggingastofnun tók þátt í að greiða hefði lækkað um 8,2% á tímabilinu 1997-1999. Gengislækkun krónunnar hefði þó leitt til einhverrar hækkunar á ný. Undir bréfið ritar Hjörleifur Þórarinsson, formaður Lyfjahóps SV, og þar er fjórum staðhæfingum Ástu Ragnheiðar úr útvarpsfréttum 31. október sl. svarað.

Hinar þrjár staðhæfingarnar lúta að utanferðum lækna í boði lyfjafyrirtækja, umbunarkerfi og meintum mútuferðum. Í bréfi Lyfjahópsins kemur fram að ásakanir um mútuferðir séu alvarlegar, þær jaðri við atvinnuróg og megi túlka sem lítilsvirðingu. Eftirfarandi er útdráttur úr samkomulagi Læknafélags Íslands og Lyfjahóps SV: "Læknar geta þegið ferðastyrki til að sækja erlenda fræðslufundi sem þjóna eðlilegum markmiðum viðhalds og endurmenntunar. Í slíkum ferðum í boði lyfjafyrirtækja er eðlilegt að útlagður kostnaður sé greiddur vegna ferðar og gistingar. Veitingar á vegum fyrirtækjanna skuli verða hóflegar. Ekki er við hæfi að bjóða eða þiggja ferðir sem hafa að höfuðmarkmiði að koma framleiðslu fyrirtækjanna á framfæri. Ekki er við hæfi að greiddur sé kostnaður maka eða annarra ferðafélaga lækna."