Hólmfríður Sveinsdóttir
Hólmfríður Sveinsdóttir
HÓLMFRÍÐUR Sveinsdóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri í Borgarbyggð og aðalverkefni hennar er að koma á Staðardagskrá 21 í sveitarfélaginu.
HÓLMFRÍÐUR Sveinsdóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri í Borgarbyggð og aðalverkefni hennar er að koma á Staðardagskrá 21 í sveitarfélaginu. Ennfremur hefur hún á sinni könnu málþing um atvinnu- og búsetumál í Borgarfirði sem haldið verður í byrjun næsta árs og Borgfirðingahátíð næsta sumar.

Hólmfríður er með BA-próf í stjórnmálafræði og starfaði áður sem verkefnisstjóri á fræðslu- og ráðgjafarsviði Iðntæknistofnunar 2000-2001 og þar á undan sem deildarsérfræðingur á Vinnumálastofnun 1994-2000.

Hólmfríður er Borgnesingur og er ánægð með að vera komin til starfa hér. Hún segist hafa fundið fyrir gríðarlega miklum velvilja íbúanna í sinn garð og að fólk sé almennt mjög áhugasamt um þau verkefni sem hún mun sinna hérna, en hún er ráðin tímabundið í 11 mánuði.

Það var í apríl 2000 að bæjarstjórnin samþykkti umhverfisstefnu og var það fyrsta skrefið að Staðardagskrá 21. Síðastliðið vor var skipaður stýrihópur til að vinna að verkefninu. Staðardagskrá 21 felur í sér heildaráætlun um þróun hvers samfélags fyrir sig og byggist hugmyndafræðin á sjálfbærri þróun. Sjálfbær þróun gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum. Eins má segja að Staðardagskrá 21 sé ekki bara alhliða umhverfisáætlun í venjulegum skilningi, heldur áætlun um velferð okkar sjálfra og samfélagsins. Ákveðið hefur verið að setja á laggirnar tengslahóp í sambandi við verkefnið.