Reynir Traustason
Reynir Traustason
eftir Reyni Traustason. 248 bls. Nýja bókafélagið ehf. Reykjavík 2001.
Í NÝJUSTU bók Reynis Traustasonar, Ameríska draumnum, segja fimm Íslendingar búsettir í Bandaríkjunum frá lífshlaupi sínu. Bókin er af sama toga og Seiður Grænlands, sem Reynir sendi frá sér í fyrra, þar sem nokkrir Íslendingar búsettir í Grænlandi, höfðu orðið.

Í Ameríska draumnum ríður fyrstur á vaðið Bjarni Tryggvason geimfari, þá kemur Hallfríður Schneider, sem giftist bandarískum dáta, Jón Grímsson sjómaður og að síðustu aðalræðismannshjónin Kristín og Hilmar Skagfíeld.

Það er engum blöðum um það að fletta, að frásögn Bjarna geimfara heldur þessari bók uppi. Sú veröld sem hann lifir og hrærist í og þeir áfangar sem hann hefur náð á ferli sínum eru einstakir og sannarlega aðdáunarverðir. Hann fer yfir feril sinn á 40 síðum og segir frá áhugaverðum rannsóknum sínum m.a. á vindþoli bygginga en hápunktur frásagnarinnar er vitaskuld geimfaralífið. Þegar auglýst var eftir kanadískum geimförum árið 1983 vegna samkomulags Kanada og Bandaríkjanna um byggingu Alþjóðlegu geimstöðvarinnar, var Bjarni valinn ásamt fimm öðrum úr hópi 4.300 umsækjenda. Í ágúst 1997 var Bjarna loks skotið út í geiminn í sex manna áhöfn geimferjunnar Discovery. Bjarni hafði hannað búnað til að vernda viðkvæm rannsóknatæki fyrir titringi, sem átti að koma fyrir í geimstöðinni. "Það var stór dagur í lífi mínu þegar komið var að því að ég færi út í geiminn." (50). Hann lýsir því ágætlega hvernig er að vera um borð í geimferjunni í sjálfu geimskotinu og kemst þannig að orði: "Þetta var eins og að ferðast á fleygiferð á stórum trukki um holóttan veg." (51).

Hann segir í lokin að þótt hann spái gífurlegri framþróun í geimnum í framtíðinni, þá sjái hann ekki fyrir sér að geimferðir verði á færi almennings, einkum vegna kostnaðar. Það er áhugavert að heyra hann ræða um möguleika Íslendinga á hlutdeild í Alþjóðlegu geimstöðinni. Það yrði e.t.v. í gegnum fyrirtækið Flögu sem vinnur að svefnrannsóknum og hefur hannað búnað til þeirra rannsókna. Bjarni hefur mælt með því að hann yrði rannsakaður með það fyrir augum að hann færi í geimstöðina og fara þær rannsóknir nú fram í kanadísku geimvísindastofnuninni í Montreal.

Frásögn Bjarna var hins vegar allt of stutt og óskiljanleg sú ráðstöfun Reynis Traustasonar að taka minnsta plássið undir besta viðmælandann.

Afgangurinn af bókinni vakti lítinn áhuga minn. Hallfríður Schneider segir frá því er hún kynntist manninum sínum á stríðsárunum í Reykjavík og allur bærinn logaði í kjaftasögum. Að mínu mati má það einu gilda hvort hermaðurinn var þegar kvæntur í Bandaríkjunum, svona sögur eru hrikalega klisjukenndar nema þær séu sagðar á einstaklega áhugaverðan hátt og því er ekki að heilsa í þessari bók. Eftir skilnað við konu sína kvænist hermaðurnn Hallfríði og saman flytja þau til Bandaríkjanna. Þar ber í raun fátt til tíðinda, sem getur talist nógu merkilegt til að það eigi heima í bók.

Frásögn Jóns Grímssonar tekur 90 síður og þar er sagt frá sjómennsku hans og útgerð í Bandaríkjunum. Hann rífur kjaft á stöku stað og lendir í einu og öðru, svona eins og gengur með hressa stráka, en frásögn hans skildi lítið eftir sig. Þetta er þegar á öllu er botninn hvolft saga af manni sem fluttist til Bandaríkjanna eins og þúsundir annarra Íslendinga.

Frásögn af lífshlaupi Skagfield-hjónanna í lokin gerðu lítið til að lyfta bókinni upp á almennilegt plan. Víst auðgaðist Hilmar á iðnrekstri sínum og Kristín hannaði fatnað á frægt fólk. Það yrði ágætis söguefni út af fyrir sig en það er ekkert unnið sérstaklega með það. Þess í stað er sagt frá lífshlaupi þeirra frá fæðingu til vorra daga án þess að um sé að ræða sérstök áhersluefni.

Stíllinn á bókinni er auk þess víðast hvar tilþrifalítill og stirður og efnistökin bera það með sér að Reynir Traustason hafi ætlað sér eitthvað allt annað en að hreyfa svolítið við lesendum sínum með því að fylla nærri heila bók af fremur atkvæðalitlu hjali.

Örlygur Steinn Sigurjónsson