[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MEÐALÁRANGUR íslenskra unglinga í lestri er marktækt betri en meðaltal nemenda í OECD-löndunum en þeir standa bestu þjóðunum engu síður nokkuð að baki. Í lestrarþættinum lentu Íslendingar í 12.
MEÐALÁRANGUR íslenskra unglinga í lestri er marktækt betri en meðaltal nemenda í OECD-löndunum en þeir standa bestu þjóðunum engu síður nokkuð að baki. Í lestrarþættinum lentu Íslendingar í 12. sæti en Finnar í því efsta en þetta er ekki í fyrsta sinn sem Finnar koma vel úr námskönnunum. Í stærðfræði- og náttúrfræðilæsi voru Japanar og Suður-Kóreubúar efstir en Finnar voru þar einnig sterkir. Þá vekur og sérstaka athygli að um þriðjungur nemenda svaraði því til að þeir læsu lítið sem ekkert sér til skemmtunar.

Þetta kemur fram í PISA-könnun, sem gerð er á vegum OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, á árangri fimmtán ára nemenda í lestri, stærðfræði og náttúrufræði. Í könnuninni nú var megináherslan lögð á lestrarþáttinn. Markmiðið með rannsókninni er að reyna að meta hversu vel nemendum sem eru að ljúka skyldunámi hefur tekist að tileinka sér þá þekkingu og ná þeirri hæfni sem þeir þurfa á að halda til þess að taka fullan þátt í nútímasamfélagi.

Ekki nógu margir í efsta þrepi

Í kynningu Júlíusar K. Björnssonar, forstöðumanns Námsmatsstofnunar, kom fram að meðalárangur íslensku nemendanna er einnig betri en meðaltalsárangur í stærðfræði. Í náttúrufræði var aftur á móti ekki marktækur munur á árangri íslenskra nemenda og meðaltali nemenda allra þátttökulandanna.

Alls sýndu 10% nemendanna í þróuðustu löndum heims hámarksgetu í lestri, þ.e. þeir ná svokölluðu fimmta þrepi. Þessir nemendur skilja flókið ritað mál, geta túlkað upplýsingar og dregið af þeim réttar ályktanir, ásamt því að nýta sér margs konar sértæka þekkingu. Í Ástralíu, Kanada, Finnlandi, Nýja-Sjálandi og Bretlandi er þetta hlutfall á milli 15% og 19%. Á Íslandi reyndist hlutfallið vera 9% sem er ekki marktækt frábrugðið meðaltali OECD-ríkjanna. Það er þó verulega lægra en hjá þeim þjóðum sem ná bestum árangri og sagðist Júlíus telja eðlilegt að kanna hvort og þá hvernig hækka mætti þetta hlutfall með því að gera betur við bestu nemendurna. Niðurstöðurnar bentu til þess að í íslenskum skólum fengi allstór hópur nemenda ekki nægilega verðug verkefni að kljást við eða fullnýtti ekki getu sína í grunnskólanum.

Fleiri íslenskir nemendur búa yfir grunngetu í lestri

Á Íslandi er hlutfall nemenda sem ekki ná lægsta hæfnisþrepinu marktækt lægra en OECD-meðaltalið eða um 4%. Júlíus segir að þessar niðurstöður bendi til þess að hér á landi sé lökustu nemendunum vel sinnt miðað við það sem gerist víða annars staðar.

Á þrepi eitt eru að jafnaði 12% nemenda en það þrep krefst þess að grundvallarhæfni í lestri sé fyrir hendi og verða nemendur að geta ráðið við verkefni eins og að finna ákveðið atriði í texta eða skilja meginþema hans. Júlíus segir að ungt fólk sem ekki hefur þessa hæfni sé ekki vel í stakk búið til frekara náms og eigi því í erfiðleikum með að afla sér meiri menntunar og ná árangri á öðrum sviðum að loknu skyldunámi.

Júlíus tók fram að góður almennur árangur hefði sterk tengsl við jafna dreifingu niðurstaðna. Meðalárangur Íslendinga var marktækt yfir OECD-meðaltalinu og bilið á milli besta og lakasta árangurs var því fremur lítið. Andstætt því sem var t.d. í Þýskalandi reyndist dreifing niðurstaðna í íslenska úrtakinu öll vera vegna mismunar milli nemenda og að ákaflega litlu leyti vegna mismunar milli skóla. Júlíus segir að lítill sem enginn munur sé því á árangri íslenskra nemenda eftir skólum. Það endurspegli einsleitni íslenska skólakerfisins og styðji þá hugmynd að á Íslandi sé ekki um að ræða marktæka mismunun í námi eftir skólum, hverfum, landshlutum og efnahag skóla, eins og sjá má í flestum öðrum löndum.

Íslenskir strákar slakir

Í mörgum löndum reyndust strákar vera töluvert á eftir í lestri og raunar stóðu stelpur sig betur í lestri en strákar í öllum þátttökulöndunum. Þó sýnir marktækur munur á milli landa að skólakerfi þeirra bjóða nemendum umhverfi og aðstæður í misjöfnum mæli sem henta báðum kynjum. Í öllum þátttökulöndunum eru strákar líklegri til þess að vera á þrepi eitt eða lægra í lestri.

Júlíus benti sérstaklega á þá staðreynd að á Íslandi eru strákar helmingi líklegri en stelpur til þess að vera á þrepi eitt eða neðar í lestrargetu sem benti til þess að sinna þyrfti þeim mun betur en nú er gert.

Í helmingi þátttökulandanna standa strákar sig betur en stelpur í stærðfræði. Stóran hluta þessa munar má rekja til þess að hlutfall stráka meðal þeirra bestu er hærra en stelpna en kynjahlutfallið er jafnt meðal þeirra sem standa sig illa. Á Íslandi reyndist hins vegar ekki vera marktækur munur á kynjunum, hvorki í stærðfræði né í náttúrufræði, sem aftur táknar að íslenskir strákar koma fremur illa út í samanburði við önnur lönd. Júlíus tók hins vegar fram að hafa bæri í huga að PISA-verkefnin í stærðfræði og náttúrufræði eru ákaflega háð lestrargetu. Búast mætti við að væru þau tengsl minni myndi árangur strákanna verða betri en skólasystra þeirra, sérstaklega í stærðfræði. Því væri ljóst að reyndu stærðfræðiverkefni verulega á lestrargetu stæðu stúlkur sig jafnvel og piltar.

Jafn aðgangur að námi á Íslandi

Könnunin leiddi í ljós að nemendur sem búa við betri félagslega stöðu standa sig nokkuð betur en þeir sem hafa laka stöðu en þessi munur er minni í sumum löndum en öðrum. Kanada, Finnland, Ísland, Japan, Kórea og Svíþjóð eru lönd sem eru yfir meðaltali OECD-landanna í lestrargetu en í þessum löndum virðast áhrif félagslegra aðstæðna á árangur nemenda vera hvað minnst.

Í Tékklandi, Þýskalandi, Ungverjalandi og Lúxemborg er þessu öfugt farið, þ.e. félagsleg staða hefur mikil áhrif á árangur. Því má draga þá ályktun að á Íslandi hafi nemendur að mestu jafnan aðgang að námi, óháð efnahags- og félagslegri stöðu.

PISA-könnunin er víðtækasta rannsókn sem gerð hefur verið á þekkingu og getu nemenda en í nær öllum löndum byggist könnunin á úrtaki. Hér á landi tóku allir íslenskir nemendur í 10. bekk í fyrra þátt í rannsókninni og kom fram í máli Júlíusar K. Björnssonar, forstöðumanns Námsmatsstofnunar, að þetta dregur úr allri óvissu á íslensku niðurstöðunum. Rannsóknin verður endurtekin á þriggja ára fresti. Í fyrra var megináherslan á lestrarþáttinn, árið 2003 verður það stærðfræðin og náttúrufræði árið 2006.