BERGLJÓT ARNALDS: Þarf að vera bæði skemmtilegt og fræðandi.
BERGLJÓT ARNALDS: Þarf að vera bæði skemmtilegt og fræðandi.
1. "Mér líður mjög vel með nýju bókina. Það er spennandi og skemmtilegt að vera með bók fyrir eldri krakka og jafnvel fullorðna líka," segir Bergljót Arnalds leikkona og rithöfundur.

1.

"Mér líður mjög vel með nýju bókina. Það er spennandi og skemmtilegt að vera með bók fyrir eldri krakka og jafnvel fullorðna líka," segir Bergljót Arnalds leikkona og rithöfundur. Bergljót er þekktust fyrir bækur sínar og tölvuleiki um stafakarlana sem notið hafa mikilla vinsælda. Þetta er hennar fyrsta bók fyrir eldri krakka en hún segir hana ætlaða 10-13 ára krökkum.

2.

Sagan fjallar um Viktor, strák, sem ferðast í gegnum veraldarsöguna allt aftur að upphafinu. Hann þarf að bjarga heiminum, því Tíminn hefur lagst til svefns, búinn að fá nóg af tímastressinu í fólkinu. Andartakið er frosið. Ef Viktori tekst ekki að vekja Tímann og fá hann til starfa á nýjan leik þá deyr allt líf á jörðinni. Á leiðinni lendir strákurinn í alls kyns mannraunum þarf t.d. að berjast við sjóræningja, kúreka, grameðlur og hittir sögulegar persónur, t.d. Lúðvík XIV, Napóleon og Sesar.

3.

Allar persónurnar tengjast tímanum á einn eða annan hátt. Hvað er Lúðvík 14. að gera við tímann sinn, Sesar breytti tímatalinu, og tók upp júlíanska tímatalið. Viktor hittir líka Einstein sem segir að tíminn sé afstæður. "Hvað merkir það?" spyr Viktor sig. "Og af hverju er eins og tíminn líði ekki alltaf eins."

4.

"Þetta er gömul hugmynd sem ég var búin að ganga með í maganum í 10 ár.Fannst tími til kominn að láta verða af henni. Annars ætlaði ég aldrei að byrja að skrifa fyrr en ég yrði gömul, svona amma sem segir og skrifar sögur og bakar pönnukökur. En þegar ég var byrjuð þá spruttu alltaf fram nýjar og ferskar hugmyndir sem áhugavert er að skoða.

5.

Mér finnst gaman að flétta saman skemmtun og fræðslu. Sagan á fyrst og fremst að vera skemmtileg og spennandi, en líka fræðandi og vonandi vekja áhuga lesanda á sögunni. Boðskapurinn er líka sá að njóta líðandi stundar og meta tímann sem við eigum. Þetta er alls ekki kennslubók í mannkynssögu heldur er tilgangurinn að vekja áhuga á efninu. Mér finnst sjálfri svo leiðinlegt að gera eitthvað án tilgangs. Þarf að vera bæði skemmtilegt og fræðandi. Þá er tímanum ekki eytt til einskis."

Bókaútgáfan Virago hefur gefið út bók Bergljótar Arnalds, Í leit að tímanum.