MEREDITH Stewart, starfsmaður Enron, situr með föggur sínar fyrir utan aðalskrifstofur fyrirtækisins í Houston í Texas á mánudaginn, þegar starfsfólk, sem fyrirtækið hafði sagt upp, tók pokana sína.
MEREDITH Stewart, starfsmaður Enron, situr með föggur sínar fyrir utan aðalskrifstofur fyrirtækisins í Houston í Texas á mánudaginn, þegar starfsfólk, sem fyrirtækið hafði sagt upp, tók pokana sína. Alls var fjögur þúsund starfsmönnum á aðalskrifstofunum sagt upp á mánudaginn, og sama dag fékk fyrirtækið 1,5 milljarða dollara vítamínsprautu frá fjárfestum. Eru þessar aðgerðir liður í endurskipulagningu fyrirtæksins, er miðar að því að koma í veg fyrir að annað fyrirtæki, Dynegy, hætti við fyrirhugaðan samruna fyrirtækjanna, er búið var að semja um.

Á sunnudaginn fór Enron, sem verið hefur á meðal umsvifamestu orkufyrirtækja í heimi, fram á greiðslustöðvun, en fjármálaskýrendur hafa sagt að ekkert bíði fyrirtækisins annað en gjaldþrot, sem yrði eitt hið mesta í sögunni. Síðdegis á mánudag tryggði fyrirtækið sér allt að 1,5 milljarða dollara fjármögnun frá fjárfestingarfyrirtækinu JP Morgan Chase og Citibank, og fékk heimild dómara til að verja 250 milljónum dollara til að halda starfsemi sinni áfram á meðan endurskipulagning færi fram. Alls voru starfsmenn fyrirtækisins um 21 þúsund, þar af störfuðu um 7.500 í aðalstöðvunum.