HKÁ, Reykjavík 2001. 272 bls., myndir.
ÍSLENDINGAR munu flestir kannast við nafn Evelyn Stefánsson Nef fyrir þá sök að hún var eiginkona Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar. Á síðari árum, eftir að áhugi á ævi og störfum Vilhjálms for vaxandi á ný hér á landi, hefur hennar stöku sinnum verið getið í fjölmiðlum hér á landi. Hún hefur komið hingað til lands oftar en einu sinni, fyrst í fylgd Vilhjálms árið 1949, kom með myndarlegum hætti að vígslu Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri árið 1998 og á hér góða vini og kunningja.

En þessi kjarnakona hefur gert margt annað á langri ævi en að vera gift Vilhjálmi og sækja Íslendinga heim. Æviferill hennar hefur verið býsna fjölbreytilegur og viðburðaríkur. Hún fæddist í New York árið 1913, dóttir ungverskra innflytjenda af gyðingaættum og ein fjögurra systkina. Faðir hennar lést skyndilega er hún var fjórtán ára og fékk það áfall svo mjög á móður hennar að hún missti málið og mælti vart orð frá vörum þann hálfan fjórða áratug sem hún átti ólifað.

Þessi skelfilegu áföll höfðu vitaskuld mikil áhrif á heimilislífið og framtíð systkinanna. Þau björguðust sem best þau gátu, Evelyn hélt áfram námi og fór síðan að vinna fyrir sér eftir því sem hún gat, m.a. með söng og dansi á næturklúbbum. Eftir misheppnað hjónaband með listamanninum Bil Baird giftist hún Vilhjálmi Stefánssyni og fór að starfa með honum í bókasafni hans. Þar fann hún sig og næsta aldarfjórðunginn vann hún mikið starf, sem að mestu tengdist rannsóknum og ritstörfum um málefni norðurslóða, ýmist ein eða í samstarfi við Vilhjálm. Eftir andlát hans giftist Evelyn aftur, John U. Nef prófessor, og stóð það hjónaband í annan aldarfjórðung, uns Nef lést. Á þeim árum starfaði hún að ýmsum málum, m.a. á sviði sállækninga og umhyggju.

Eins og sjá má af þessari stuttorðu lýsingu hefur Evelyn Stefánsson Nef lifað viðburðaríku lífi. Hún er tungumálagarpur og hefur um ævina kynnst fjölmörgum merkum mönnum og konum austan hafs og vestan, þ. á m. Chagall-hjónunum en frásögnin af vináttu þeirra John U. Nef við þau er að minni hyggju besti hluti bókarinnar.

Það var haft eftir reyndum og þekktum ævisagnaritara breskum að ævi sérhvers manns væri söguefni, en hitt væri svo undir söguritaranum komið hvernig til tækist með að koma efninu til skila í hverju tilviki. Viðburðarík ævi Evelyn Stefánsson Nef er vissulega gott söguefni, en ekki væri ég heiðarlegur gagnvart sjálfum mér, henni eða lesendum Morgunblaðsins ef ég lýsti því yfir að sjálfsævisaga hennar væri sérstaklega vel heppnuð. Fyrsti hlutinn, um uppvaxtarárin í New York, og þátturinn um kynni hennar af Chagall-hjónunum eru að sönnu fróðlegir og vel skrifaðir, en á hinn bóginn bætir hún litlu við vitneskju okkar um Vilhjálm Stefánsson.

Það er aðall hverrar ævisögu, sjálfsævisagna jafnt sem annarra, að frásögnin sé með þeim hætti að lesandi geti að lestri loknum talið sig þekkja þann sem sagan fjallar um. Það tekst höfundi þessarar bókar ekki. Við kynnumst æviferli hennar nokkuð gjörla, en ekki henni sjálfri. Frásögn hennar er einlæg og á köflum opinská, en of yfirborðskennd til að verða skemmtileg eða vekja verulega forvitni. Á köflum drukknar sagan í smáatriðum og upptalningu á atburðum og fólki, sem er fjarlægt íslenskum lesendum og færist engu nær þótt áfram sé lesið. Á stöku stað virðist mér gæta smávegis ónákvæmni, t.d. þar sem segir að Norðmenn hafi numið Grænland á eftir Íslendingum á miðöldum.

Þýðing Björns Jónssonar virðist mér slétt og felld, en aldrei verður íslenski textinn þó rismikill. Prófarkalestur hefði að ósekju mátt vanda betur.

Jón Þ. Þór