Sagan af Loðinbarða
Sagan af Loðinbarða
Jóhanna Á. Steingrímsdóttir endursagði. Margrét E. Laxness myndskreytti. Salka 2001, 37 bls.
SAGAN af Loðinbarða er önnur bókin í bókaflokknum Íslensk ævintýri sem bókaforlagið Salka gefur út, en í fyrra kom ævintýrið um Grámann í Garðshorni. Hér er um að ræða nýjar endursagnir og myndskreytingar á þekktum íslenskum ævintýrum sem höfða sérstaklega til barna.

Sagan af Loðinbarða segir af samskiptum þeirra systra, Ásu, Signýjar og Helgu, við ófrýnilegan tröllkarl, Loðinbarða, sem nemur þær á brott hverja á fætur annarri og vill fá þær til að giftast sér. Eins og þekkt er úr ævintýrum er ein systranna, Helga, höfð útundan í fjölskyldunni og látin þjóna hinum, en hún lætur það ekki á sig fá, er glöð og kát og reynist hafa ráð undir rifi hverju þegar kemur að því að fást við óvættina. Eldri systurnar tvær fara hins vegar illa út úr samskiptum sínum við tröllið og eru lokaðar inni í afhelli þar sem þær híma hungraðar og illa á sig komnar þar til Helga bjargar þeim með ráðsnilld sinni og kænsku.

Frásögnin er bráðskemmtileg og endursögn Jóhönnu Á. Steingrímsdóttur er vel gerð á kjarnyrtu máli sem öll börn ættu að skilja. Í aðfaraorðum að bókinni segir Jóhanna að hún segi söguna eins og amma hennar hafi sagt sér hana og hún hafi byrjað allar sínar sögur á orðunum: "Einusinni var það sem einusinni var, en hefði það aldrei verið, hefði ég heldur ekki getað sagt þér þessa sögu."

Það sem situr eftir í kolli ungra lesenda eða hlustenda við sögulok er fyrst og fremst hversu ógnarsnjöll hún Helga hafi verið: Með jákvæðu hugarfari, óttaleysi og gáfum sínum vefur hún tröllkarlinum ógurlega um fingur sér, blekkir hann af snilld og bjargar bæði sjálfri sér og systrum sínum frá bráðum bana eða enn verri örlögum. Sérlega skemmtilegur er kaflinn þar sem hún í gervi Kolrössu krókríðandi blekkir alla tröllahópana, sem eru á leið til brúðkaupsins ríðandi á hrúts- og hestshausum, hvalbeinum, sópum og kústum. Sjálf flengríður hún skörungi í öruggu dulargervi.

Í myndum Margrétar E. Laxness er áherslan lögð á hið skoplega og eru margar þeirra mjög skemmtilegar og ríma vel við frásögnina sem einnig leiftrar af skopi. Fyndnastar eru myndirnar af tröllunum við hinar ýmsustu aðstæður: ríðandi í loftinu, við veisluborðið, í áflogum.

Það var virkilega gaman að rifja upp þetta frábæra ævintýri með börnunum sem kunnu vel að meta söguna og dáðust að hinni snjöllu stelpu, rétt eins og börn fyrri tíma. Þetta gamla ævintýri hefur allt sem prýðir góða frásögn: snjalla sögufléttu, litskrúðugar persónur, hæfilega spennu og góð sögulok.

Soffía Auður Birgisdóttir