NÝJAR langtímarannsóknir á þroskaferli fyrirbura sýna fram á aukna tilhneigingu þeirra til að eiga við hegðunarvandamál eins og athyglisbrest og ofvirkni að stríða á skólagöngu.

NÝJAR langtímarannsóknir á þroskaferli fyrirbura sýna fram á aukna tilhneigingu þeirra til að eiga við hegðunarvandamál eins og athyglisbrest og ofvirkni að stríða á skólagöngu. Sé gripið nógu snemma inn í mál fyrirbura með meiri stuðningi og handleiðslu við foreldra barnanna og betri aðbúnaði á sjúkrahúsum þegar eftir fæðingu má samkvæmt sömu rannsóknum fyrirbyggja eða minnka margs konar þroskaörðugleika. Mikill sparnaður í heilbrigðiskerfinu gæti verið samfara aukinni áherslu á umönnun fyrirbura og mætti þá minnka kostnað við sérkennslu í skólum í framtíðinni en um 4% barna greinast að jafnaði með ofvirkni hér á landi.

Flest þeirra barna sem fæðast fyrir tímann ná eðlilegum þroska en fyrirburar eru þó í áhættuhópi fyrir þroskakvilla. Þessi óvissa um þroska og framtíðarhorfur fyrirbura eykur þörf fyrir snemmtæk íhlutunartilboð, þ.e. sérstaka örvun, sem foreldrar þurfa handleiðslu við. Tilboð af þessu tagi eru mikilvæg til að ná sem bestum þroska hjá fyrirburum.