Í UNDIRBÚNINGI er stofnun nýs íslensks flugfélags, svonefnds lággjaldaflugfélags.
Í UNDIRBÚNINGI er stofnun nýs íslensks flugfélags, svonefnds lággjaldaflugfélags. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa nokkrir aðilar, einkum lögfræðingar, tekið sig saman um undirbúning stofnunar slíks flugfélags og hefur Jóhannes Georgsson, sem eitt sinn var framkvæmdastjóri SAS á Íslandi, verið í forsvari fyrir hópnum.

Fundur með samgönguráðherra í vikunni

Jóhannes hefur, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, lagt ákveðin gögn inn til kynningar hjá samgönguráðuneytinu og jafnframt hefur hann óskað eftir fundi með Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra, sem líklegt er að geti orðið síðar í vikunni, jafnvel á morgun.

Að sögn hefur verið unnið að stofnun félagsins í tvö ár og verður beitt nokkuð óhefðbundnum aðferðum í rekstri til að ná niður kostnaði. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins eru áætlanir félagsins á lokastigi og hafa þeir sem staðið hafa að undirbúningnum safnað allnokkru hlutafé.

Hugmynd þeirra mun vera sú, að fá aðila í London, sem hafa flugrekstrarleyfi, til þess að fljúga í sínu nafni, fáist tilskilin leyfi íslenskra stjórnvalda, og munu þeir þannig vilja stefna að því að hefja áætlunarflug á nokkra áfangastaði í Evrópu með næsta vori.

Þeir áfangastaðir sem rætt er um að yrði flogið til eru Kaupmannahöfn, London og París. Það mun þó ekki vera endanlega ákveðið.