ÞJÓÐHAGSSTOFNUN spáir því að landsframleiðsla minnki um 1% á næsta ári og dragist töluvert meira saman en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun í byrjun október. Þetta kemur fram í endurskoðaðri spá Þjóðhagsstofnunar sem birt var í gær.
ÞJÓÐHAGSSTOFNUN spáir því að landsframleiðsla minnki um 1% á næsta ári og dragist töluvert meira saman en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun í byrjun október. Þetta kemur fram í endurskoðaðri spá Þjóðhagsstofnunar sem birt var í gær. Að baki liggja lakari efnahagsleg skilyrði og meiri samdráttur þjóðarútgjalda en áður var gert ráð fyrir. Áætlað er að hagvöxtur á yfirstandandi ári verði ívið meiri en gert var ráð fyrir í síðustu spá, eða 2,2% í stað 1,9%.

Reiknað er með að viðskiptahalli minnki mun meira en spáð var í haust og verði um 49 milljarðar í ár og 38 milljarðar á næsta ári en í þjóðhagsáætlun var gert ráð fyrir að viðskiptahallinn yrði 46 milljarðar á næsta ári. Spáð er 6,1% hækkun neysluvöruverðs á milli áranna 2001 og 2002, útlit er fyrir meiri vöxt á vöruútflutningi á næsta ári og spáð er 2% atvinnuleysi.

Þá hefur stofnunin endurskoðað mat á kaupmætti ráðstöfunartekna. Telur hún að gera megi ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna haldist óbreyttur á næsta ári en í síðustu spá var gert ráð fyrir 1% samdrætti.