[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NORÐURLANDAMÓTIÐ í samkvæmisdönsum fór fram í Laugardalshöll sl. laugardag. Keppt var í fjórum flokkum og komu keppendur frá öllum Norðurlöndunum.
NORÐURLANDAMÓTIÐ í samkvæmisdönsum fór fram í Laugardalshöll sl. laugardag. Keppt var í fjórum flokkum og komu keppendur frá öllum Norðurlöndunum. Þetta var í annað skipti sem Norðurlandamót í samkvæmisdönsum er haldið á Íslandi og heppnaðist það mjög vel í alla staði. Hið eina sem á skyggði voru of fáir áhorfendur. Þeir sem komu fengu svo sannarlega að njóta þessarar fallegu íþróttar, því: "Dansinn sameinar með einstæðum hætti list og hæfni, tækni og ögun, einbeitingu og mýkt. Tónlistin bregður töfraljóma á háttbundna hreyfingu og við hrífumst af framgöngu þeirra sem leikandi létt sýna erfið spor og flétta þau saman í heilsteyptan dans," segir í kveðju frá hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, sem birtist í leikskrá keppninnar. Íslendingar áttu að sjálfsögðu keppendur í öllum flokkum og stóðu þeir sig með stakri prýði.

Norðurlandamót í samkvæmisdönsum hefur breyst svolítið síðustu ár á þann veg að nú er mótið opið öllum þeim keppendum sem búa einhvers staðar á Norðurlöndunum, en ekki einungis tveimur pörum frá hverju landi, eins og áður var. Þetta finnst mér góð breyting, vegna þess að þetta gefur fleiri áhugasömum pörum möguleika á að spreyta sig í nokkuð sterkri keppni.

Ég held að það sé mikilvægt að halda áfram að taka þátt í Norðurlandamótum og halda þannig sambandi við frændur okkar og nágranna, eins held ég að keppendur kynnist svolítið innbyrðis og njóti þess á keppnum á erlendri grundu.

Öll umgjörð keppninnar var hin glæsilegasta í alla staði, Laugardalshöllin fallega skreytt og jólaleg. Dómarar keppninnar voru Peder Dan Rigaard frá Danmörku, Carola Tuokko frá Finnlandi, Karianne Stensen Gulliksen frá Noregi, Mia Öhrmann frá Svíþjóð, Kara Arngrímsdóttir frá Íslandi, Hans Galke frá Þýskalandi og Frank Venables frá Englandi.

Yngsti keppendahópurinn var flokkurinn Unglingar I og voru 11 pör skráð til leiks. Í þessum flokki var raunar aðeins eitt erlent par, en hin pörin íslenzk. Fór svo að Jónatan Arnar og Hólmfríður vörðu Norðurlandameistaratitil sinn frá því á síðasta ári. Þau dönsuðu geysilega vel á laugardaginn, sérstaklega sígildu samkvæmisdansana, mér fannst þau ekki alveg jafn kraftmikil og venjulega í suður-amerísku dönsunum, sem voru engu að síður mjög vel dansaðir. Jónatan og Hólmfríður eru ákaflega glæsilegt par á velli, sem dansar af mikilli innlifun. Í öðru sæti kom einnig íslenzkt par þau Þorleifur og Ásta. Þau komu mjög sterk til leiks, sérstaklega í suður-amerísku dönsunum. Þar voru þau kraftmikil og nákvæm og mjög "töff" í nær alla staði. Mér fannst þau ekki alveg jafn nákvæm og vandvirk í sígildu samkvæmisdönsunum, sem er vonandi bara eitthvað tímabundið. Í þriðja sæti komu svo Danirnir Emilian og Benedicte, prýðisgóðir dansarar, þó mun betri í sígildu dönsunum.

Í flokki Unglinga II voru 12 pör skráð til leiks, þar af helmingurinn frá Íslandi. Norðurlandameistarar í þessum flokki komu frá Noregi Tom Erik og Pia. Tom og Pia eru mjög sterkt par, sérstaklega í sígildu samkvæmisdönsunum þar sem þau eru tæknilega mjög sterk. Mér fannst valsinn þeirra sérstaklega vel dansaður, mikil dýpt og fætur notaðir til hins ýtrasta, eins var foxtrottinn mjög glæsilega dansaður. Í öðru sæti komu Damien og Claudia frá Danmörku. Þau eru einnig mjög sterk og voru jöfn Tom og Piu að stigum að lokinni keppni, svo það þurfti að nota reglu 11 til að finna sigurvegara. Damien og Claudia eru nokkuð jafnara par en Tom og Pia og eru einnig tæknilega mjög sterkt par. Í þriðja sæti urðu Davíð Gill og Helga, einungis einu stigi á eftir 1. og 2. pari. Þau dönsuðu gríðarlega vel á laugardaginn, besti dans sem ég hef séð til þeirra saman. Þau eru greinilega að ná að stilla sig saman og voru þau án efa sigurvegarar í suður-amerísku dönsunum, a.m.k. að mínu mati. Þau þurfa aðeins að pússa sig betur saman í sígildu dönsunum og þá er þetta komið. Einstaklega heillandi og vaxandi par.

Flokkur ungmenna var einnig mjög spennandi en þar voru 8 pör skráð til leiks, þar af 2 íslenzk. Það er skemmst frá því að segja að Norðurlandameistarar urðu þau Ísak og Helga Dögg frá Íslandi. Það var allt annað að sjá til þeirra núna en síðast þegar ég sá þau. Þau voru miklu kraftmeiri og öruggari að þessu sinni. Ísak og Helga Dögg eru nokkuð jafnvíg á báðar greinar, þó finnst mér þau betri í suður-amerísku dönsunum, ég hef það svona á tilfinningunni að þeim finnist þeir skemmtilegri. Svo sannarlega eitt sterkasta par sem við Íslendingar höfum átt. Systkinin Eric og Monica frá Noregi komu svo í annað sæti, mjög skemmtilegir og kraftmiklir dansarar. Í þriðja sæti voru Mikki Chow og Ásta Sigvaldadóttir sem kepptu fyrir Danmörku. Þau eru einnig mjög skemmtilegt par og var ég að vonast til að þau yrðu í 2. sætinu. Mér fannst þau eiga það skilið.

Í flokki fullorðinna voru 5 pör skráð til leiks, þar af tvö íslenzk. Norðurlandameistar í þessum flokki voru frá Finnlandi, Petrri og Paivi. Þau voru að mínu mati nokkuð örugg í sínu sæti. Höfðu prýðisgóða fótavinnu og fallega stöðu. Í öðru sæti var einnig par frá Finnlandi Jukka og Minna Lisa, sem einnig gerðu mjög vel.

Norðurlandamótið í dansi 2001 var skemmtilegt og sterkt mót og ánægjulegt í alla staði. Vel var að því staðið í alla staði og megum við Íslendingar vera stoltir af því að geta haldið svo glæsilegt mót.

Úrslit

Unglingar I

Jónatan Örlygss./Hómfríður Björnsd., Ísl.

Þorleifur Einarss./Ásta Bjarnad., Íslandi

Emilian Seiersen/Benedicte Bendtse, Dan.

Björn E. Björnss./Herdís H. Arnalds, Íslandi

Stefán Claessen/María Carrasco, Íslandi

Baldur K. Eyjólfss./Erna Halldórsd., Íslandi

Unglingar II

Tom E. Nilsen/Pia Engelberg, Noregi

Damien Czarnecki/Claudia Rex, Danmörku

Davíð G. Jónss./Helga Björnsd., Íslandi

Allan Vedel/Camilla Dalsgaard, Danmörku

Lars A: Wiursrud/Marta H. Nordal, Noregi

Friðrik Árnas./Sandra J. Bernburg, Íslandi

Ungmenni

Ísak H. Nguyen/Helga D. Helgad., Íslandi

Eric Adolfsen/Monica Adolfsen, Noregi

Mikki Chow/Ásta Sigvaldad., Danmörku

Björn Bitch/Stine C. Dalsgaard, Danmörku

Richard Andersson/Cecilia Ehring, Svíþjóð

Grétar Khan/Jóhanna Bernburg, Íslandi

Fullorðnir

Petri Saario/Paivi Saario, Finnlandi

Jukka Sjöblom/Minna L. Sjöblom, Finnlandi

Jan Wejneman/Elisabet Wejneman, Svíþ.

Björn Sveinss./Bergþóra Bergþórsd., Íslandi

Sven Wernberg/Marianne Eklund, Svíþjóð

Jón Eiríkss/Ragnhildur Sandholt, Íslandi

Jóhann Gunnar Arnarsson