Bandaríkjamaðurinn John Walker, öðru nafni Abdul Hamid, sem barðist með talibönum og er nú í haldi bandarískra hermanna.
Bandaríkjamaðurinn John Walker, öðru nafni Abdul Hamid, sem barðist með talibönum og er nú í haldi bandarískra hermanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRÉTTIR um að tvítugur Bandaríkjamaður, John Phillip Walker Lindh, hefði barist með talibönum í Afganistan hafa vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og fólk sem þekkti hann er forviða á þessum tíðindum.
FRÉTTIR um að tvítugur Bandaríkjamaður, John Phillip Walker Lindh, hefði barist með talibönum í Afganistan hafa vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og fólk sem þekkti hann er forviða á þessum tíðindum.

Bandaríkjamaðurinn er í haldi bandarískra hermanna eftir að hafa fundist meðal tuga fanga sem lifðu af blóðuga uppreisn í virki nálægt borginni Mazar-e-Sharif í norðurhluta Afganistans í vikunni sem leið. Hundruð erlendra liðsmanna talibana og al-Qaeda, samtaka Osama bin Ladens, létu lífið í uppreisninni.

Tók íslamska trú sextán ára

Bandarískir sérsveitarmenn tóku þátt í átökunum við fangana og einn af útsendurum bandarísku leyniþjónustunnar CIA beið bana. Bandarískir embættismenn sögðu í gær að talið væri að tveir aðrir bandarískir ríkisborgarar væru á meðal fanganna sem komust lífs af.

Bandaríski fanginn, sem notaði eftirnafn móður sinnar, Walker, snerist til íslamskrar trúar þegar hann var sextán ára. Hann hafði fengið kaþólskt uppeldi.

Eftir nám í framhaldsskóla nálægt heimabæ Walkers, Fairfax í Kaliforníu, hélt hann til Jemens þar sem hann lærði arabísku. Hann hóf síðan nám í íslömskum trúarskóla í Bannu í Pakistan fyrir ári.

Faðir hans, Frank Lindh, kvaðst síðast hafa talað við hann í maí og hann hefði þá sagst ætla að dvelja í fjallahéraði í Pakistan yfir sumarið.

"Ég hafði enga ástæðu til að hafa áhyggjur af því að hann myndi hætta lífi sínu með því að fara til Afganistans," sagði Frank Lindh. "Múslímar leggja mikla áherslu að þeim beri að hlýða foreldrum sínum. John hafði ekki samband við mig til að óska eftir leyfi til að fara til Afganistans þar sem hann vissi að ég myndi ekki samþykkja það."

Lindh kvaðst hafa ráðið lögfræðing til að gæta réttar sonar síns. Tilskipun Bandaríkjaforseta um að færa eigi meinta hryðjuverkamenn fyrir herrétt nær ekki til bandarískra borgara. Samkvæmt bandarískum lögum er hins vegar hægt að svipta Bandaríkjamann ríkisborgararétti hafi hann gengið til liðs við hersveitir ríkis sem á í stríði við Bandaríkin.

Lindh kvaðst ætla að taka vel á móti syni sínum þegar hann kæmi til Bandaríkjanna en skamma hann fyrir að fara til Afganistans.

"Eigum við að fyrirgefa honum?"

Walker var helsta umræðuefni íbúa Fairfax eftir að skýrt var frá því að hann hefði barist með talibönum. "Hafi hann miðað byssu á einhvern vina minna í hernum á að draga hann fyrir rétt," sagði Russell Decker, 51 árs gítarleikari. "Hafi hann ekki gert það á að setja hann á geðsjúkrahús í Bandaríkjunum."

Annar tónlistarmaður í Fairfax kvaðst líta á ferð Walkers til Afganistans sem "trúarlega leit". "Ég trúi því ekki að hann sé óþjóðrækinn. Ég tel að hann hafi annaðhvort villst á þessari leið eða fundið sjálfan sig."

Bob Sharpe, 56 ára rithöfundur, kvaðst búast við lagalegri deilu um hvað gera ætti við Walker. "Á Bandaríkjastjórn að ákveða örlög hans eða Norðurbandalagið? Eigum við að fyrirgefa honum? Ég tel að það þurfi að handtaka og yfirheyra hann. Þetta ræðst að miklu leyti af afstöðu hans."

Walker sagði eftir að hann var tekinn til fanga að hann hefði farið til Afganistans með það að markmiði að aðstoða talibana við að byggja upp "hreint íslamskt ríki". Móðir hans, Marilyn Walker, kvaðst telja að talibanar hefðu heilaþvegið hann. "Hann er bara krakki. Hann veit ekki hvað hann er að gera."

Foreldrar Walkers, sem skildu fyrir nokkrum árum, og gamlir vinir hans sögðu að hann hefði aldrei sýnt áhuga á stjórnmálum eða hernaði.

"Ég tel ekki rétt að kalla hann "bandaríska talibanann"," sagði Bill Jones, vinur Lindhs. "Ég lít á hann sem bandarískt fórnarlamb talibana. Hann var bara góður strákur sem lenti í slæmum félagsskap."

Hreifst af Malcom X

John Phillip Walker Lindh var skírður eftir Bítlinum John Lennon. Walker tók íslamska trú eftir að hafa hrifist af sjálfsævisögu Malcolms X, leiðtoga bandarísku blökkumannasamtakanna Nation of Islam.

Walker fór oft í mosku nálægt Fairfax og hóf nám í Kóraninum við Íslömsku miðstöðina í San Francisco. Hann tók þá upp nafnið Sulayman al-Faris. Í Afganistan gekk hann hins vegar undir nafninu Abdul Hamid.

Eftir dvölina í Jemen hélt hann náminu áfram í skóla íslömsku hreyfingarinnar Tablighi Jamaat í Pakistan, en hún sneri bresku poppstjörnunni Cat Stevens, sem heitir nú Yusuf Islam, til íslamskrar trúar. Hreyfingin er ekki talin pólitísk en samkvæmt fréttum frá Pakistan eru nokkrir forystumanna hennar taldir tengjast róttækum íslömskum hreyfingum.

Fairfax, San Anselmo. AP, Los Angeles Times.