Chen Shui-bian, forseti Taívans.
Chen Shui-bian, forseti Taívans.
CHEN Shui-bian, forseti Taívans, hvatti í gær kínversku stjórnina til að virða vilja Taívana en flokkur hans, sem hefur áhuga á að lýsa yfir sjálfstæði eyjarinnar, vann mikinn sigur í þingkosningunum í landinu sl. laugardag.
CHEN Shui-bian, forseti Taívans, hvatti í gær kínversku stjórnina til að virða vilja Taívana en flokkur hans, sem hefur áhuga á að lýsa yfir sjálfstæði eyjarinnar, vann mikinn sigur í þingkosningunum í landinu sl. laugardag.

"Kínastjórn leit niður á mig og á stjórn mína fyrir kosningarnar en nú ætti hún að grípa tækifærið og sætta sig við vilja kjósenda," sagði Chen og lagði áherslu á, að stefna sín hefði ekkert breyst með kosningasigrinum. Ekki er búist við, að Kínastjórn muni taka þessum yfirlýsingum Chens fagnandi, en í gær hafði hún ekki sagt annað um kosningaúrslitin en að þau hefðu engu breytt.

Fréttaskýrendur segja, að kínverskir ráðamenn hafi miklar áhyggjur af sigri sjálfstæðissinna á Taívan og harmi ósigur sinna fornu fjenda, Kuomingtans eða þjóðernissinna. Þeirra stefna var þó sú, að aðeins væri um að ræða "eitt Kína" en Chen hafnar því.

Mikið afhroð þjóðernissinna

Niðurstaða kosninganna var sú, að flokkur Chens, Framfarasinnaði lýðræðisflokkurinn, fékk 87 þingmenn af 225 á þingi en þjóðernisssinnar aðeins 68. Fengu þeir 110 menn kjörna í síðustu kosningum. Er þetta í fyrsta sinn sem þeir eru ekki stærsti flokkurinn á þingi.

Flokkur Chens var í gær kominn vel á veg með að mynda meirihluta á þingi með öðrum flokkum, sem vilja sjálfstæði, og brotthlaupnum þjóðernissinnum.

Taípei. AFP.