MargrétSæmundsdóttir
MargrétSæmundsdóttir
NOKKRIR áhyggjufullir vegfarendur hafa haft samband við Umferðarráð vegna þess að fyrirhugað er að opna austurenda Hafnarstrætis aftur fyrir umferð nú í svartasta skammdeginu.
NOKKRIR áhyggjufullir vegfarendur hafa haft samband við Umferðarráð vegna þess að fyrirhugað er að opna austurenda Hafnarstrætis aftur fyrir umferð nú í svartasta skammdeginu.

Ég er sammála þeim sem hafa haft samband við mig að slysahætta hjá gangandi vegfarendum muni aukast við þessa opnun. Farþegar strætisvagna hafa vanist því að gatan sé lokuð og gönguleið þeirra frá biðskýli við Lækjartorg sé örugg fyrir bílaumferð. Þeir ganga því um svæðið með því hugarfari. Margt eldra fólk notar strætisvagna og er sérstaklega hvatt til þess frekar en að aka í eigin bílum þegar færðin er slæm. Margir í þessum hópi eru farnir að missa heyrn og sjón og ekki hjálpar skammdegið til. Af þessum sökum á eldra fólk erfiðara með að vara sig á því að einkabílar munu nú aka yfir gönguleið þeirra að vögnunum, gönguleið sem er sérhönnuð til þess að þjóna farþegum strætisvagna.

Eldri borgarar eru ekki hávær þrýstihópur. Ég tel ólíklegt að þeir geri meira en hringja í Umferðarráð og biðja um aðstoð. Ef Hafnarstræti verður opnað aftur gæti því svo farið að margt eldra fólk hætti að taka strætisvagn á Lækjartorgi. Þá fækkar þeim enn sem nota almenningsvagna. Ungt skólafólk er annar hópur sem nýtir sér þjónustu almenningsvagna.

Ungt fólk er, eins og allir vita, stundum ærslafengið og mjög oft að flýta sér að ná strætó. Þessi hópur hefur líka vanist því að gönguleiðin yfir torgið og að biðstöð vagnanna sé vel varin. Það er því líka í hættu og svo eru það allir hinir sem nýta sér þjónustu strætisvagna. Ég hef farið og fylgst með umferðinni við biðstöðvarnar á Lækjartorgi og séð með eigin augum að þar eru margir á ferð á annatímum. Ég tel í fyllstu einlægni að borgaryfirvöld séu að bjóða hættunni heim með þessari ráðstöfun og -séu að taka minni hagsmuni fram fyrir meiri.

Ennþá er tími til þess að hætta við þessi áform og ég beini þeim tilmælum til borgaryfirvalda að þau stefni ekki gangandi vegfarendum í hættu að nauðsynjalausu.

MARGRÉT SÆMUNDSDÓTTIR,

fræðslufulltrúi Umferðarráðs.

Frá Margréti Sæmundsdóttur: