BÆJARRÁÐ Reykjanesbæjar hefur samþykkt stefnumótun í vinabæjamálum.
BÆJARRÁÐ Reykjanesbæjar hefur samþykkt stefnumótun í vinabæjamálum. Mest áhersla verður lögð á samskipti við sveitarfélög sem eiga aðild að vinabæjakeðju fimm norrænna sveitarfélaga, minni áhersla verður lögð á samskipti við tvö önnur og vinabæjasamskiptum við þrjú sveitarfélög sagt upp.

Í stefnunni felst að vinabæjasamskiptum verður skipt upp í tvo flokka eftir vægi. Í fyrsta flokki er vinabæjakeðja fimm norrænna sveitarfélaga: Hjörring í Danmörku, Trollhättan í Svíþjóð, Kristiansand í Noregi og Kerava í Finnlandi, auk Reykjanesbæjar. Hún er talin hafa meira vægi fyrir stjórnsýslu Reykjanesbæjar. Formleg tengsl á sveitarstjórnarstiginu eru í föstum skorðum milli þessara bæja og um þau hefur verið gerður sérstakur samningur. Haldin eru vinabæjamót annað hvert ár og ýmis önnur samskipti á milli stofnana og íbúa bæjanna.

Skúli Þ. Skúlason, forseti bæjarstjórnar, segir að með samþykktinni sé verið að fá einbeittari áherslur í þessum málaflokki og gera samskiptin sem allra árangursríkust.

Í öðrum flokki, sem talinn er hafa minna vægi en sá fyrsti, eru Orlando í Bandaríkjunum og Midvangur í Færeyjum. Orlandoborg hefur verið vinabær Keflavíkur og síðar Reykjanesbæjar í tíu ár. Tilgangurinn var meðal annars að stuðla að auknum viðskiptum. Gagnkvæmar heimsóknir bæjarfulltrúa og/eða embættismanna hafa verið einu sinni á ári. Ætlunin er að viðhalda formlegum tengslum við Orlandoborg á sviði opinberrar stjórnsýslu. Einnig við Midvang þegar Færeyingar óska en samskiptin hafa legið niðri um tíma.

Hins vegar er ætlunin að segja upp formlegum vinabæjasamskiptum við Pandrup í Danmörku, Brighton í Englandi og Hem í Frakklandi. Lítil samskipti hafa verið við þessa bæi síðustu árin og í sumum tilvikum einungis að nafninu til, að því er fram kemur í greinargerð með tillögu meirihluta bæjarstjórnar sem samþykkt hefur verið samhljóða í bæjarráði. Fitjar í Noregi, sem voru í vinabæjasamstarfi við Reykjanesbæ og þar áður við Njarðvík, eins og Pandrup, hafa sagt þessum samskiptum upp með formlegum hætti.