HÉRAÐSDÓMUR Vesturlands telur að hreppsnefnd Dalabyggðar hafi brotið stjórnsýslulög þegar hún tók ákvörðun um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu og ganga inn í kaupsamning eiganda hennar og kaupanda að henni.
HÉRAÐSDÓMUR Vesturlands telur að hreppsnefnd Dalabyggðar hafi brotið stjórnsýslulög þegar hún tók ákvörðun um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu og ganga inn í kaupsamning eiganda hennar og kaupanda að henni. Dómurinn felldi úr gildi ákvörðun hreppsnefndar og viðurkenndi ennfremur að hún hefði glatað forkaupsréttinum. Þá taldi dómurinn ennfremur að ákvörðun hreppsnefndar hefði ekki samrýmst skýrum tilgangi jarðalaga.

Dómnum þótti ljóst að tilgangur hreppsnefndarinnar hefði ekki verið sá að vernda landbúnaðarhagsmuni, nema að mjög litlu leyti, heldur framar öðru að styðja uppbyggingu ferðaþjónustu í Dalabyggð, einkum í tengslum við ferðaþjónusturekstur Dalagistingar ehf. á aðliggjandi jörð, Laugum, sem hreppsnefndin á hlut í. Ekkert lægi fyrir um að jörðin yrði setin í eigu hreppsnefndar en kaupandinn hugsaði sér að sitja jörðina og stunda þar landbúnað.

Ákvörðun hreppsnefndar var tekin 21. september 2000 á grundvelli jarðalaga og kærði kaupandinn hana til landbúnaðarráðuneytisins sem staðfesti ákvörðunina. Eftir úrskurð ráðuneytisins stefndi kaupandinn hreppsnefndinni.

Jörðin er talin vera um 1.500-2.000 hektarar og var söluverðmæti 22 milljónir króna án bústofns, véla- og framleiðsluréttar. Stefnandi taldi að beiting forkaupsréttar af hálfu Dalabyggðar væri íþyngjandi og veruleg skerðing á samningafrelsinu sem væri grundvallarregla í íslenskum rétti.

Dómurinn féllst á þetta og taldi að hreppsnefndin hefði átt að rannsaka ítarlegar áform stefnanda og gefa honum kost á að skýra nánar fyrirætlanir sínar áður en hún tók ákvörðunina.

Dóminn kvað upp Finnur T. Hjörleifsson héraðsdómari. Jón Höskuldsson hdl. var lögmaður stefnanda og Ingi Tryggvason hdl. lögmaður stefndu, hreppsnefndar.