SAMÞYKKT var á fundi Fræðsluráðs Reykjavíkur á mánudag að leggja áherslu á styrkveitingu til móðurskóla í þróun kennsluhátta og móðurskóla í fjölmenningarlegri kennslu auk annarra þróunarverkefna.
SAMÞYKKT var á fundi Fræðsluráðs Reykjavíkur á mánudag að leggja áherslu á styrkveitingu til móðurskóla í þróun kennsluhátta og móðurskóla í fjölmenningarlegri kennslu auk annarra þróunarverkefna. Forstöðumaður þróunarsviðs lagði á fundinum fram tillögur um áherslur í auglýsingu vegna styrkveitinga úr Þróunarsjóði grunnskóla Reykjavíkur þar sem fyrrgreindar áherslur eru m.a. lagðar til.

Hlutverk móðurskóla er að vera frumkvöðull á sínu sviði og gegna ráðgjafahlutverki gagnvart öðrum skólum Reykjavíkur meðal annars með því að halda fræðslufundi, taka á móti kennurum sem áhuga hafa á að kynna sér kennslu eða starfshætti og með kynningu í öðrum skólum sé þess óskað. Þeir skólar sem áhuga hafa á að verða móðurskólar í fjölmenningarlegum kennsluháttum og í þróun kennsluhátta geta sótt um styrk úr sjóðnum. Þegar er búið að ráðstafa 2,1 milljón króna til móðurskóla í foreldrasamstarfi og móðurskóla í tungumálakennslu sem nú eru starfandi. Til ráðstöfunar úr sjóðnum eru því 8,9 milljónir ef gert er ráð fyrir óbreyttri upphæð í sjóðnum, þ.e. 11 milljónum. Samkvæmt upplýsingum Fræðsluráðs má gera ráð fyrir að einhverjir þeirra sex móðurskóla sem þegar eru starfræktir sæki um framhaldsstyrk en upphæð framhaldsstyrkja fyrir yfirstandandi skólaár er 600 þúsund krónur.