Luis Figo og félagar í Real Madrid eru með fullt hús stiga í C-riðli. Hér sækir Portúgalinn í spánska liðinu að Grikkjanum Sotiris Kirgiakos, leikmanni Panathinaikos.
Luis Figo og félagar í Real Madrid eru með fullt hús stiga í C-riðli. Hér sækir Portúgalinn í spánska liðinu að Grikkjanum Sotiris Kirgiakos, leikmanni Panathinaikos.
ÖLL liðin eru jöfn í D-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu eftir tvær umferðir. Tveir leikir voru í riðlinum í gær, Arsenal vann Juventus og Leverkusen lagði Deportivo La Coruna. Í C-riðlinum hefur Real Madrid fullt hús eftir sigur á Panathinaikos í gærkvöldi og Sparta Prag vann óvnæntan sigur á Portó í Portúgal.
Arsenal vann sannfærandi 3:1 sigur á Juventus þar sem Svíinn litríki, Fredrik Ljungberg skoraði tvívegis og Thierry Henry skaut einu marki inn á milli marka Svíans. Heimamenn voru mun betri aðilinn í fyrri hálfleik en sluppu þó fyrir horn snemma leiks þegar Alessandro Del Piero komst í ákjósanlegt færi en Stuart Taylor varði vel. Hann var aftur á ferðinni skömmu síðar er hann varði vel skot Pavels Nedveds. Gestirnir byrjuðu heldur betur og fengu nokkrar hornspyrnur sem þó sköpuðu ekki hættu enda var vörn Lundúnaliðsins sterk og örugg.

Fyrra mark Svíans kom eftir fínt skot Patricks Vieiras sem Gianluigi Buffon varði en hélt ekki boltanum. Ljungberg varð fyrstur að knettinum og skoraði af öryggi. Buffon hefði átt að halda boltanum því skot Vieira var ekki fast.

Buffon átti hins vegar varla möguleika þegar Henry skoraði sjö mínútum síðar með stórglæsilegu skoti úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Hann smellti knettinum yfir varnarvegginn og í vinstra hornið á meðan Buffon vandaði sig fullmikið við að vera í hinu horninu. Glæsimark.

Henry, sem dvaldi um tíma í herbúðum Juve án þess að leika mikið, átti frábært skot frá vítateigshorni, en boltinn lenti ofan á þaknetinu.

Eftir hlé komu gestirnir mjög ákveðnir til leiks enda höfðu þeir litlu að tapa. Þeir uppskáru mark eftir níu mínúna leik og var það hálfgert sjálfsmark. Eftir góða sókn náði David Trezeguet skoti sem var bjargað á línu en boltinn fór í bakið á Taylor markverði og í netið.

Síðasta mark leiksins var stórglæsilegt. Dennis Bergkamp lék þá á þrjá varnarmenn yst í vítateignum og vippaði inn fyrir tvo aðra á Ljungberg sem skoraði af öryggi.

Leverkusen á beinu brautina

Leverkusen vann óvæntan 3:0 sigur á Deportivo La Coruna. Þýska liðið tapaði 4:0 í fyrstu umferðinni fyrir Juventus og því var mikið í húfi hjá því. Yfirburðir heimamanna voru miklir og í raun meiri en markatalan segir til um.

Ze Roberto skoraði fyrsta markið og urðu heimamenn að bíða þar til á 64. mínútu eftir því. Hann skoraði beint úr aukaspyrnu og þremur mínútum síðar skoraði Oliver Neuville annað mark heimamanna en hann hefur verið mjög ógnandi við mark mótherjanna í vetur. Þriðja markið gerði síðan annar ógnvaldur markvarðanna, Michael Ballack, á 78. mínútu.

"Við erum mjög stoltir af þessum leik. Við lékum mjög vel og sigurinn þurrkar út eitthvað af því sem miður hefur farið síðustu vikurnar," sagði Jens Nowotny.

Leverkusen misnotaði fjöldann allan af góðum marktækifærum og hefði hæglega getað unnið mun stærri sigur. Á sama tíma voru Spánverjar, sem unnu Arsenal 2:0 í fyrstu umferðinni, allt að því hættulega daprir í sókninni. Eini maðurinn sem eitthvað ógnaði marki heimamanna var Hollendingurinn Roy MacKaay sem var klappað lof í lófa tvívegis, en tókst þó ekki að skora.

Staðan í riðlinum er því þannig að öll liðin eru með þrjú stig. Juventus heldur efsta sætinu með tvö mörk í plús, Arsenal er með jafna markatölu í öðru sæti og síðan kemur Leverkusen með eitt mark í mínus og Deportivo einnig en Spánverjar hafa gert færri mörk.