LITLU munaði að mjög óvænt úrslit yrðu á fyrsta leikdegi heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik sem hófst á Ítalíu í gær. Ungverjaland, sem þykir eitt af sigurstranglegustu liðum keppninnar, lenti í geysilegum vandræðum með Angóla en náði að knýja fram sigur, 24:23.
Stúlkurnar frá Angóla höfðu forystuna þegar skammt var til leiksloka en reynslan sagði til sín í lokin og þær ungversku náðu að innbyrða öll stigin.

Natalja Morskova skoraði 17 mörk fyrir Spánverja sem unnu nokkuð óvæntan sigur á Rúmenum, 29:25. Morskova er rússnesk, eins og nafnið bendir til, og er nýlega komin með spænskan ríkisborgararétt.

Norðurlandaliðin þrjú unnu öll auðvelda sigra og Noregur þann stærsta, 37:22 gegn Brasilíu. Yfirburðirnir voru miklir eins og tölurnar segja til um en Monica Sandve skoraði mest fyrir norska liðið, 9 mörk. Danmörk vann Kína, 36:24, og skoraði Lotte Kiærskou 8 mörk fyrir dönsku stúlkurnar. Svíar unnu Kongó, 29:21.

Stærstu tölur gærdagsins voru í viðureign Júgóslavíu og Grænlands. Það var frumraun grænlenskra handknattleikskvenna í lokakeppni stórmóts og þær höfðu lítið að gera í hendurnar á þeim júgóslavnesku sem unnu með yfirburðum, 35:13.

Hollensku stúlkurnar, sem sigruðu Ísland tvívegis á dögunum, sýndu styrk sinn með því að gera jafntefli við Úkraínu, 28:28. Úkraína varð í öðru sæti á síðasta Evrópumóti.