Fleiri fyrirtæki munu hasla sér völl í tóminu og ástfangin pör geta ekki horft lengur á stjörnurnar, þær hverfa í tifandi auglýsingum gegn vágestinum andremmu.
Skólarnir eiga við fjárhagsvanda að stríða og ein lausnin er að selja auglýsingapláss á göngunum. Hugurinn reikar víða við þessi tíðindi, meðal annars út fyrir gufuhvolfið eins og eðlilegt er og oft gerist. Eftir 50 ár verður enn deilt hart um margt af því sem menn og þjóðir berjast núna um, auðlindir eins og orku, vatn og land til að búa í. En eignarrétturinn á fleiri fyrirbærum, sem ekki er búið að setja neina verðmiða á enn þá, getur líka orðið tilefni deilna og átaka.

Fyrir nokkrum árum var sagt frá því að alþjóðlegur gosdrykkjaframleiðandi hefði hug á því að setja upp stórt auglýsingaskilti úti í geimnum, þar er gott pláss sem enginn nýtir, þarna er hægt að gera út í friði. Hver á geiminn? Ekki íslenska ríkið, svo mikið er víst. Við eigum hann öll þó að ekki séu ákvæði þess efnis í nokkurri stjórnarskrá.

Tæknin er enn eitthvað að stríða mönnum en nú er að verða til alþjóðleg geimstöð sem nota á til hvers kyns gagnlegra vísindarannsókna. Þekkingin sem aflað er verður líka notuð til umdeildari starfa. Við getum verið viss um að einhvern tíma, kannski eftir hálfa öld eða enn fyrr, verður hægt að skjóta upp aragrúa af til þess gerðum málmplötum sem síðan verður raðað saman í óteljandi fermetra af upplýstu auglýsingaskilti, með vörumerki og slagorðinu fræga: Pepcid eyðir andremmunni!

Hægt verður að láta þessi tignarlegu spjöld svífa að staðaldri umhverfis allan hnöttinn svo að enginn verði út undan. Blásnauðum hirðingjum í Mongólíu og góðglöðum nátthröfnum í auðmannahverfum London yrði gert jafnhátt undir höfði. Fleiri fyrirtæki munu hasla sér völl í tóminu og ástfangin pör geta ekki horft lengur á stjörnurnar, þær hverfa í tifandi auglýsingum gegn vágestinum andremmu.

Líklega er þetta nokkur svartsýni en erfitt er að sjá hvernig alþjóðasamstaða um að setja takmörk við framtakinu myndi nást. Hagsmunir þeirra sem berjast á markaðnum eru of miklir. Sumar þjóðir myndu hagnast á því að taka að sér skjóta upp flaugunum, aðrar á því að smíða skiltin og svo frv. Ekki má gleyma því að inn í umræðuna myndu fléttast mismunandi viðhorf til einkareksturs, opinberrar afskiptasemi og afnota af almenningi eins og geimnum.

Nú er ég á hálum ís. Eitt af einkennum þeirra sem vilja öðrum vel og hafa af því atvinnu er einmitt óttinn um að almenningur sé að verða hálfvitlaus af hamslausri innrætingu framleiðenda sem ekki taka tillit til annars en gróðans. Við séum öll auðsveipar leikbrúður í höndum samsærismanna alþjóðlegra risafyrirtækja sem ætli sér að eyðileggja okkur og byrji á því að ráðast á eina varnarvopnið okkar, tennurnar.

Auðvitað er sjálfsagt að vera á varðbergi gagnvart öllum einhliða áróðri, reyna að gleypa ekki hvað sem er og bægja versta óhroðanum frá sér og sínum. Auglýsingar geta verið svo heimskulegar að friðsamir menn velti fyrir sér ofbeldislausnum. En oftast getum við ráðið því sjálf hvað þær angra okkur mikið, við getum slökkt eða sleppt því að lesa. Sumar af brýningunum sem við heyrum eru líka orðnar svo þreytulegar og gamalkunnar að maður getur freistast til að vísa þeim á bug eins og hverju öðru úreltu vinstraglamri.

En þótt viðvaranir og hrakspár séu sumar af vondum hugmyndafræðilegum ættum er ekki þar með sagt að stundarhagsmunir sölumennskunnar séu alltaf skásti vegvísirinn. Þeir sem fullyrða það eru orðnir jafnmiklir hugmyndafræðilegir dellukarlar og þeir sem nú klóra sér i höfðinu yfir rústunum í Austur-Evrópu eða neita að viðurkenna niðurstöðuna. Viðskipti lúta sínum lögmálum og stundum rekast þau á önnur gildi.

Sumir ágætir liðsmenn einkaframtaksins eru einfaldlega svo aðgangsharðir að við myndum hvergi fá frið fyrir boðskap þeirra ef ekki væru settar skorður. Einhverjir þeirra myndu ekki hika við að ræna frá okkur rómantískum stjörnuhimninum og virkja hann eins og hvert annað óspjallað hálendi ef þeir sæju sér það fært. Og vandinn er að enginn getur sett slíkar skorður nema þing og ríkisvald. Blessað ríkið. Svona getur það verið síðasta hálmstráið í neyð okkar.

Hvað kemur þetta fjölbrautaskólum í Reykjavík við? Satt að segja er alls ekki víst að fáeinar auglýsingar á afmörkuðum stöðum á veggjum skólahúss þurfi að vera slæm leið til að afla aukatekna. Nemendurnir eru vanir auglýsingum og gæti fundist stofnunin heimilislegri fyrir vikið. Allt snýst þetta um hófsemi, hvort hætta sé á að menn fari offari og hvergi verði friður fyrir uppáþrengjandi hvatningum um að kaupa hitt eða þetta. Engin þörf er á að kenna nemendum að kaupa, skólinn á að vera staðurinn þar sem við lærum að finna til og hugsa og þekkja muninn á sætu og súru, ekki bara að smjatta.

Fótboltamenn eru ekkert síður nauðsynlegir en kennarar en hlutverkið er annað. Þess vegna er engin goðgá að á skyrtunum þeirra sé eitthvað fleira en nafn og númer, til dæmis auglýsingar. En ef liðin semja um að stöðva leikinn á stundarfjórðungs fresti til að hrópa auglýsingatuggur með aðstoð gjallarhorns er eitthvað að. Þá er verið að ganga á rétt okkar hinna sem viljum fyrst og fremst sjá þá fást við boltann. Og fari kennarar að ganga með auglýsingar á bakinu í starfi sínu er ljóst að eitthvað hefur farið úrskeiðis. Vonandi fá engir slíkar hugmyndir þrátt fyrir samdrátt og niðurskurð.

Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is