Jónína Benediktsdóttir
Jónína Benediktsdóttir
Jónína Benediktsdóttir, Salka 2001, 147 bls.
ÞEIR sem lesa ritdóma Morgunblaðsins að staðaldri vita að fyrir ofan hvern ritdóm koma fram staðlaðar upplýsingar um viðkomandi verk (sjá hér að ofan). Undir heitinu BÆKUR á að koma fram hvers konar verk er um að ræða: skáldsaga, ljóðabók o.s.frv. Ég verð að játa að það olli mér nokkrum heilabrotum hvaða merkimiða ég gæti sett á bókina Dömufrí. Hvorki er þetta skáldsaga né ljóðabók þótt margt skáldlegt sé í þessum texta að finna og reyndar nokkur ljóð að auki. Ekki er heldur hægt að tala um sjálfsævisögu eða endurminningar þótt vissulega byggi höfundur hér á eigin ævi og minningum að miklu leyti. Ég valdi að setja skilgreininguna: Hvatningarbók, því bókin er skrifuð í þeim stíl sem gjarnan er kenndur við sjálfshjálp, en mér finnst það fremur leiðinlegt heiti: Sjálfshjálparbók - og markmið höfundar virðist mér vissulega vera hvatning til lesenda fyrst og fremst.

Dömufrí er kvenleg bók, lítil í broti og nett (fer vel í kvenveski), og ítrekað á bakhlið snjóhvítar bókarkápu að í bókinni endurspeglist "heitar tilfinningar, kvenleg ást og umhyggja sem er konum oft fjötur um fót á vettvangi atvinnulífsins." Það er Jónína Benediktsdóttir "þekkt baráttukona úr íslensku þjóðlífi og vinsæll fyrirlesari" sem er höfundur bókarinnar og í persónulegri frásögn lýsir hún sjálfri sér á opinskáan hátt; tilfinningum sínum, lífsviðhorfum og hugleiðingum um leið og hún hvetur konur áfram í margvíslegum skilningi.

Bókin er fyrst og fremst ætluð konum. Það kemur fram í baksíðutexta sem og í texta höfundar sem ávarpar lesandann beint sem "vinkonu" sína. Reyndar rokkar ávarpið frá því að geta átt við alla kvenkyns lesendur bókarinnar og til þess að virðast sérstaklega beint til einhverrar sérstakrar (nafnlausrar) vinkonu höfundar, a.m.k. er stundum erfitt að samsama sig vinkonunni, til dæmis þegar lýst er persónulegum samskiptum og samræðum t.a.m. yfir rauðvínsglasi. En höfundur talar í fyrstu persónu og beinir máli sínu til "þín" og líklegast er átt þar við lesandann og ávarpið liður í því að skapa náið samband þarna á milli.

Og Jónínu tekst vel að skapa slíka nánd (þótt vissulega sé nánd í texta ætíð byggð á listrænni blekkingu). Það gerir hún með því að skrifa afar persónulegan texta þar sem hún lýsir tilfinningum sínum á opinskáan hátt og segir frá vonum sínum, vonbrigðum og væntingum um leið og hún gefur lesendum ráðleggingar og heilræði sem byggð eru á reynslu hennar - eða bara af ríkri hugsjón.

Margt athyglisvert er að finna í texta Jónínu og vafalaust geta flestar konur tekið undir með henni og nokkuð af henni lært þegar best lætur. Hugleiðingar og heilræði hennar eru sótt jöfnum höndum í einkalíf og opinbert líf og má ýmislegt um hvoru tveggja fræðast af lestrinum. Að hluta til er texti bókarinnar byggður á fyrirlestrum sem Jónína hélt undir yfirskriftinni "Konur í kjafti karla" og vöktu verðskuldaða athygli. Í þeirri yfirskrift finnst mér kristallast stærsti kostur texta Jónínu, sem er skemmtilegur húmor blandaður beittu háði.

En það er merkileg togstreita í þessari bók. Í aðra röndina hefur bókin að geyma það sem haldið er fram á baksíðutexta: kjark, áræði og einlægni - og það í ríkulegum mæli. Maður skynjar vel þá mynd af Jónínu, sem reyndar hefur helst blasað við í opinberri birtingarmynd hennar í fjölmiðlum, sem sterkri framkvæmdakonu sem hefur munninn fyrir neðan nefnið og lætur sér fátt fyrir brjósti brenna. Í hina röndina glittir víða í textanum í viðkvæma konu sem hefur orðið fyrir barðinu á kjaftasögum og meinfýsni meðborgaranna og þessi "sögukona" er þrátt fyrir allt í mikilli varnarstöðu og sakar lesandann (vinkonu sína) fyrirfram fyrir það að dæma sig og hneykslast á því sem hún hefur að segja. Kannski hefur hún rétt fyrir sér; þeir sem það kjósa geta eflaust hneykslast og dæmt að vild.

Sjálf hafði ég að mestu leyti gaman af frásögn og hugleiðingum höfundar. Sérstaklega af þeim köflum þar sem húmorinn og háðið nýtur sín (t.d. köflunum "Að hafa skoðanir" og "Brjóstamennirnir"). Aðrir kaflar höfðuðu minna til mín, eins og gengur og gerist, og stundum fundust mér tilraunirnar til þess að skapa nánd við lesandann yfirdrifnar og allt að því væmnar. Ef til vill má þar fyrst og fremst kenna um tregðu minni til að hleypa ókunnugum of nálægt mér - svona í fyrstu atrennu.

En Dömufrí er athyglisverð bók og titillinn sérlega vel heppnaður. Ég mæli með að væntanlegir lesendur gleypi hana ekki í sig í einum bita, heldur lesi kafla og kafla í rólegheitum því annars er hætta á að boðskapur Jónínu verði of yfirþyrmandi þrátt fyrir að flestar konur geti örugglega tekið heilshugar undir allflest sem í honum felst.

Soffía Auður Birgisdóttir