Hallgrímur Helgason
Hallgrímur Helgason
Eftir Hallgrím Helgason. Mál og menning, 2001. 511 bls.
NÝJASTA skáldsaga Hallgríms Hallgrímssonar er mikið verk. Sjálfur titillinn ber með sér að hér sé markið sett hátt, kappi att við bókmenntasöguna og í húfi jafnvel höfundarrétturinn að Íslandi: Höfundur Íslands. Nafnið er í senn hrokafullt og hugvekjandi. Það er því erfitt að fletta fram hjá titilsíðunni án þess að staldra við stundarkorn; nafngiftin vekur upp spurningar. Allar sögur eiga sér höfund, ekki satt? Saga Íslands þá líka? Er hægt að vera höfundur Íslands, eiga þjóðlönd sér höfund? Með þessu víkur Hallgrímur að mikilsverðum spurningum um mörk skáldskapar og sagnfræði, ekki síst með tilliti til mótunar sjálfsvitundar lítillar þjóðar. Mannkynssögunni hlýtur að vinda fram í kaótískri skörun ólíkra og misjafnlegra óúskýranlegra atburða en eftir á leitast maðurinn við að gefa henni heildstæða merkingu, binda í orsakasamhengi, sem vitanlega felur í sér val, túlkun og hreina sagnasmíð. Þessi hreinskrift liðinnar tíðar hefur í fræðum verið kennd við Leiðarsagnir eða "grand narratív" og má túlka kanóníseraða rithöfunda hverrar þjóðar sem nokkurs konar viðurkennda þátttakendur þessara skrifa. Þeir hafa þannig ekki einungis tekið þátt í flókinni mótun þjóðarvitundar og sögu, heldur jafnframt beinlínis verið skrifaðir fyrir þessari sögu öðrum fremur.

Bókmenntaarfurinn hefur gegnt jafnvel mikilvægara hlutverki í íslenskri sögumótun en þekkist annars staðar, markviss notkun Fjölnismanna á Íslendingasögunum er þar e.t.v. skýrasta dæmið, og æ síðan hefur íslenskur fræðaskóli leitast við að feðra sögu Íslands með ötulli leit að hinum eina sanna Höfundi (Snorri Sturluson?).

Engum blöðum er hins vegar um það að fletta hver er höfundur tuttugustu aldarinnar í íslenskum bókmenntum. Halldór Kiljan Laxness stendur þar einn og óumdeildur, og er það útgangspunktur Hallgríms í bókinni sem hér um ræðir.

Segir þar frá Einari J. Grímssyni, merkasta höfundi aldarinnar sem andast árið 2000, saddur lífdaga. Hann fær þó engan frið, við tekur afar sérkennilegt handanlíf og lesendur kynnast baksögu Einars samhliða því sem söguveröldin tekur að skýrast. Einar, klæddur í þrískipt jakkaföt, vaknar í hlíðinni hjá Hrólfi bónda í Heljardal, ringlaður og hrumur, og er tekinn inn eins og ógæfusamur hreppsómagi.

Í fyrstu veit hann ekki hvar hann er eða hvernig hann komst þangað, grunar helst fornan fjandmann um að hafa rænt sér; sprautað sig niður "eins og hvern annan krókódíl" og komið fyrir í vist hjá glæpamönnum.

Sannleikurinn er þó samsærinu framandlegri og brátt uppgötvar Einar að hann er uppvakningur í eigin ævistarfi, framliðinn rithöfundur fastur í fangelsi sem hann skapaði sjálfur.

Þegar fram líða stundir kynnist Einar fólkinu á bænum í Heljardal, s.s. dótturinni Eivísi, syninum Grími og Manneskjunni - aldraðri konu sem gengur aðeins undir þessu nafni - þetta gerir hann eins og um ókunnugt fólk sé að ræða þótt öll séu þau hans afsprengi. Einar verður ófús áhorfandi að nær vonlausri lífsbaráttu kotbóndans og þeirri sorglegu atburðarás sem hann sjálfur skrifaði nokkrum áratugum fyrr og gaf út sem bókina Meistarans hendur. Er þetta draumur eða martröð, himnaríki eða helvíti? Unaður hvers höfundar eða bölvun? Rétt eins og í bókinni Þetta er allt að koma fjallar Hallgrímur hér um listamann og líf hans. En ólíkt þeirri skrumskældu mynd sem þar birtist okkur af listaspírunni Ragnheiði Birnu er Einari Joð lýst án kaldhæðni, hér er á ferðinni rithöfundur sem næstum steig á pall hjá sænsku akademíunni; Hallgrímur leggur sig fram um að skapa trúverðuga mynd af manni sem litið er á sem menningardýrgrip íslensku þjóðarinnar. Til þess eru ævi og störf Halldórs Laxness náttúrlega kjörin; skáld sem stóð af sér storma sinnar samtíðar og reisti sér ævarandi minnismerki með verkum sínum. Hallgrímur styðst þannig í grófum dráttum við lífshlaup Halldórs og bókin sem Einar er klemmdur inni í er sömuleiðis tiltölulega skýr hliðstæða við Sjálfstætt fólk.

Höfundur Íslands er þó annað og meira en lyklasaga eða skálduð skáldævisaga. Hún afmáir mörkin milli sögunnar og skáldsögunnar, sögusviðs og veruleika og veltir upp spurningum um tengsl höfunda við lesendur og gagnrýnendur. Þá er hugmyndin sem hægt er að segja að liggi frásögninni til grundvallar - Halldór Laxness í nauðungarvist hjá Bjarti í Sumarhúsum - hrein snilld og sá kraftur þverr aldrei sem hún ein og sér gefur bókinni.

Algengt er að kenna Hallgrím við póstmódernisma, enda hefur hann oft lýst andúð sinni á módernismanum og arfleifð atómskáldanna. Þá mótast skáldsögur hans, fyrir utan þá fyrstu, í ríkum mæli af haftaleysi og yfirborðsmennsku hins fjölmiðlavædda upplýsingaþjóðfélags. Höfundur Íslands undirbyggir að sumu leyti póstmódern-skilgreininguna á Hallgrími, en afbyggir að öðru. Grunnhugmynd bókarinnar felur í sér ákveðinn póstmódernískan ásetning: Verkefnið er ekki að finna upp nýja sögu heldur vinna meðvitað með bókmenntasöguna, raða saman brotum upp á nýtt, og skapa þannig "nýja" sýn á hefðina, efniviðinn.

Sjálft eðli verksins er síðan ein risastór tilvísun og orð eins og textatengsl nær vart yfir samskiptamáta bókarinnar við forvera sinn.

En í ljósi þess póstmóderníska verkefnis sem Hallgrímur leggur upp með er það engu að síður kaldhæðnislegt hversu takmarkaða samleið hann á með þeim sem jafnan eru kenndir við stefnuna. Hinn framsækni metnaður sem einkennir grunnhugmyndina birtist einna helst í tungutaki fyrstu 200 síðnanna þar sem líkt er eftir ritmáli Laxness með góðum árangri, síðan hættir höfundur að nenna að standa í þessum orðræðuleik, sjónarhornið breytist og sagan og frásagnarmátinn verður næsta hefðbundin. En bókin rís einmitt hæst í þeim köflum sem eru hvað jarðbundnastir; t.d. í forsögu Hrólfs, frásögninni af útvarpsævintýri Gríms eða endurminningum og uppgjöri Einars við afskipti sín af kommúnismanum. Það er síðan í þokukenndum skringilegheitum og tilraunum til póstmódernískrar söguvitundar sem bókin fellur niður í hálfgerða flatneskju. Dálítil vonbrigði ef miðað er við möguleikana sem hugmyndin hlýtur að bjóða upp á.

Í nýlegu viðtali í Morgunblaðinu, líkir Hallgrímur jólabókavertíðinni við stuttmyndahátíð með hinni dæmigerðu íslensku skáldsögu sem rétt fyllir 180 síður í stóru letri með tvöföldu línubili. Höfundur Íslands hins vegar ýtir frá sér í bókaskápnum. Hér er á ferðinni stór bók í fleiri en einum skilningi, og þrátt fyrir að ekki heppnist allt sem höfundur tekur sér fyrir hendur rís hún upp úr meðalmennskuflóðinu fyrir bókajólin eins og klettur í hafi. Það eru hæfileikar Hallgríms til að innbyrða menningarstrauma, háa jafnt sem lága, og skapa úr þeim tilvísunarnet í sögum sínum, hugrekki hugmyndaflugsins og lifandi kímnigáfa sem skilur hana frá mörgum samtímahöfundum. Hann á afskaplega auðvelt með að bregða sér í hin ýmsu bókmenntalíki sem eru í tísku í dag: Póstmódernískir orðaleikir, töfraraunsæi og nútímalegt, stöðugt og óhemjanlegt upplýsingaflæði; allt finnst þetta í hans nýjustu skáldsögu.

Björn Thor Vilhjálmsson