Yasser Arafat hlustar á Shimon Peres, sem sést á sjónvarpsskjá á neðri hluta myndarinnar, tala á ráðstefnu sem þeir sátu á Spáni fyrir skömmu.
Yasser Arafat hlustar á Shimon Peres, sem sést á sjónvarpsskjá á neðri hluta myndarinnar, tala á ráðstefnu sem þeir sátu á Spáni fyrir skömmu.
Í YFIRLÝSINGU sem Ísraelsstjórn sendi frá sér í fyrrakvöld er Yasser Arafat og öðrum embættismönnum sjálfstjórnar Palestínumanna lýst sem stuðningsmönnum hryðjuverka.
Í YFIRLÝSINGU sem Ísraelsstjórn sendi frá sér í fyrrakvöld er Yasser Arafat og öðrum embættismönnum sjálfstjórnar Palestínumanna lýst sem stuðningsmönnum hryðjuverka. Yfirlýsingin var gefin út í kjölfar þess að Ísraelsher hefndi fyrir hryðjuverk Hamas-hreyfingarinnar um helgina með loftárásum á stöðvar palestínskra stjórnvalda, en klofningur kom upp innan ríkisstjórnarinnar vegna útgáfu hennar.

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, lýsti yfir "stríði gegn hryðjuverkum" í sjónvarpsávarpi á mánudagskvöld, eftir að liðsmenn Hamas-samtakanna höfðu orðið alls 26 óbreyttum ísraelskum borgurum að bana í sjálfsmorðsárásum um helgina. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem gefin var út síðar um kvöldið, eru tveir hópar sem tengjast Yasser Arafat eða sjálfstjórninni skilgreindir sem hryðjuverksamtök: Tanzim-sveitirnar, sem eiga aðild að Fatah-hreyfingu Arafats, og sveit innan palestínsku öryggislögreglunnar.

Ráðherrar Verkamannaflokksins gengu út af ríkisstjórnarfundi í mótmælaskyni við útgáfu yfirlýsingarinnar og sökuðu aðila innan stjórnarinnar um að reyna að stuðla að falli sjálfstjórnar Palestínumanna. Shimon Peres, leiðtogi flokksins og utanríkisráðherra, sagði að Verkamannaflokkurinn myndi íhuga alvarlega að slíta stjórnarsamstarfinu og samflokksmaður hans, samgönguráðherrann Ephraim Sneh, lét svipuð ummæli falla. Peres hefur boðað ráðherra flokksins til fundar í dag til að ræða viðbrögð við atburðum síðustu daga.

Einn ráðgjafa Sharons, Raanan Gissin, sagði hins vegar að yfirlýsingunni væri ekki ætlað að grafa undan sjálfstjórninni, heldur auka þrýsting á Arafat um að skera upp herör gegn herskáum hópum Palestínumanna og forða frekari árásum.

Upplýsingaráðherra Palestínumanna, Yasser Abed Rabbo, vísaði í gær á bug þeim fullyrðingum sem fram koma í yfirlýsingunni um tengsl Arafats og sjálfstjórnarinnar við hryðjuverk. Sagði hann hertöku Ísraela á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu rót átakanna og sakaði Ísraelsstjórn um að minnka enn líkurnar á friði fyrir botni Miðjarðarhafs með aðgerðum sínum.

Powell segir Ísraela hafa rétt til að verja land sitt

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvatti Arafat í gær til að grípa til harðari aðgerða gegn hryðjuverkamönnum. "Ég tel að Arafat geti lagt sig meira fram en hann hefur gert til þessa," sagði Powell, þar sem hann var staddur á fundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Búkarest.

Powell sagði Ísraelsstjórn jafnframt hafa rétt til að svara sjálfsmorðsárásunum á "viðeigandi" máta og verja land sitt. Hann minnti hins vegar á að markmiðið væri að fá Ísraela og Palestínumenn aftur að samningaborðinu.

Athygli hefur vakið að Bandaríkjastjórn hefur ekki hvatt stjórnvöld í Ísrael til að halda aftur af sér í viðbrögðum við árásum helgarinnar. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hvatti jafnvel til harðra aðgerða gegn Hamas-hreyfingunni. "Eina leiðin til að verjast hryðjuverkamönnum er að elta þá uppi," sagði varnarmálaráðherrann.

Jerúsalem, Ramallah. AFP, AP.