Steinn Steinarr
Steinn Steinarr
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gylfa Gröndal. JPV útgáfa 2001 - 351 bls.
SEINNA bindi Gylfa Gröndal um skáldið Stein hefst í stríðslok. Þá er Steinn vel þekktur, búinn að festa sig í sessi sem skáld og umdeildur sem aldrei fyrr. Bókinni lýkur vorið 1958 þegar skáldið heyr sitt dauðastríð, þá fyrirmynd margra ungra skálda.

Sagan af Steini er hér spunnin áfram af jafn geðþekkri lipurð og í fyrra bindinu. Ógrynni heimilda, ritaðra og munnlegra, eru stofninn í frásögninni. Það hefur þurft mikla yfirlegu og eftirfylgni til að ná saman þessu efni og raða því saman.

Við fylgjumst með því hvernig Steinn vex í samfélaginu. Fólk sóttist eftir félagsskap hans og eftir því sem árin liðu stækkaði kunningjahópurinn. Steinn umgekkst samt aðra á sínum eigin forsendum. Hann gat verið jöfnum höndum alúðlegur, afskiptalaus og meinbæginn. Þessir mótsagnakenndu eðlisdrættir Steins hafa þótt eftirminnilegir og til frásagnar. Kunningjarnir höfðu sínar ástæður til þess að umgangast Stein. Ýmist þótti hann skemmtilegur, gáfaður eða fróður. Jafnvel þeir sem urðu fyrir barðinu á honum sóttust eftir félagsskap hans.

Góðar lýsingar eru á þessum eiginleikum Steins en skýringar skortir. T.d. vörðu Steinn og Jóhann Pétursson heilli utanlandsferð í að deila um alla skapaða hluti og nánast hötuðu hvor annan. Lesandinn er hins vegar litlu nær um það hvað rak þessa einstaklinga til að vera hvor öðrum til stöðugs óyndis.

Ungu skáldin sóttust eftir félagsskap Steins og þóttust græða á leiðsögn hans. Áður hefur verið minnst á hvernig Steinn bókstaflega sparkaði Hannesi Sigfússyni frá sér við þeirra fyrstu kynni. Öðruvísi viðtökur fékk Matthías Johannessen þegar Steinn afhenti honum eiginhandarrit af ljóðinu Landsýn með þessum orðum: "Þetta ljóð er spesíal gjöf mín til smápilts nokkurs sem Matthías heitir". Svona gat Steinn verið hlýr - og hrjúfur.

Gylfi tengir mjúklega milli atburða þannig að einstök brot raðast saman í geðþekka mynd af Steini og samtíð hans. En þótt myndin sé jafnan heil má deila um hvort litir hennar séu alltaf nógu skærir og skýrir. Mörg dæmi má tiltaka um þetta.

Steinn kemur til Danmerkur í glundroða stríðslokanna. Dönsku frelsisliðarnir ganga um og leita hefnda á nasistum og nasistavinum. Í ýtarlegum kafla er þess getið hvernig Guðmundur Kamban geldur fyrir með lífi sínu að hafa umgengist Þjóðverja um langan tíma. Þetta er saga sem víða hefur verið sögð og spurning er hversu mikið hún kemur við sögu Steins. Mörg önnur dæmi um sögur og innskot tengjast fremur lauslega Steini.

Margir, sem þekktu Stein, hafa ritað eftirminnilega um hann, stutt mál og langt. Sjálfsagt, og reyndar nauðsynlegt, er fyrir þann sem segir sögu Steins að halda þessu efni til haga, nýta það og setja í samhengi. Almennt má segja að höfundi sé annt um að sýna Stein með augum samferðamanna hans. Lítið fer hins vegar fyrir tilhneigingu til að túlka karakterinn umfram það sem kemur fram í heimildum. Segja má að frásögnin hafi yfirbragð hlutleysis, ógjarnan er reynt að segja lesandanum annað um Stein en það sem heimildir sýna. Þessi afstaða söguhöfundar er virðingarverð, hann verður seint sakaður um að læða inn tiltekinni hneigð í frásögnina. Á móti má færa rök fyrir því að endursögnin ein og sér, þótt sett sé í víðari búning, skili litlu ef ekki er gerð tilraun til að túlka þá atburði sem greint er frá. Lesandinn vill fá dýpri skilning á Steini en sem nemur því sem hann segir um sjálfan sig og aðrir hafa ritað um hann í bókum og greinum.

Undirtitill bókarinnar er Leit að ævi skálds. Sú leit mun seint ganga upp nema gerð sé tilraun til að túlka þær heimildir sem að baki liggja. Heimildir segja að Steinn hafi verið gáfaður, hnyttinn, kunni að vera í góðra vina hópi, gat verið illyrmislegur við vini og óvini. Þessi atriði skipta samt litlu máli þegar spurt er hvort vert sé að segja ævisögu hans.

Hvað gerir þá Stein að Steini? Hver er forsendan fyrir því að rita um hann ævisögu? Í sem stystu máli: ljóðin. Fyrst og fremst var Steinn skáld. Það er vegna ljóðagerðar Steins sem ævisaga hans hefur merkingu. Án ljóðanna væri saga hans ekki þess virði að vera sögð. Það hefði því mátt ætla að drjúgur hluti seinna bindisins hefði farið í að leita að hvoru tveggja: Steini í ljóðunum og ljóðunum í Steini. Þessa vegna er saga Steins ekki eingöngu leit að ævi skálds heldur beinlínis leit að skáldi.

Áhrif Steins á ljóðskáld 20. aldar eru án vafa. Margir höfunda sem nú eru að verða gamlir og jafnvel horfnir yfir móðuna miklu viðurkenna þessi áhrif enda má rekja þau í verkum þeirra. Það hefði verið ástæða til að fjalla hér miklu meira um skáldið Stein og greina hvað það er í ljóðum hans sem gerir hann að því stórskáldi sem hann er. Sömuleiðis hefði verið fróðlegt að heyra meira frá skáldunum sem hann reyndist fyrirmynd, sumum þeirra ögraði hann og önnur tugtaði hann til. Þótt margir hafi ritað margt um Stein hefði kannski verið ástæða til að leita frekar fanga hjá þeim fjölmörgu sem hafa gert sér far um að rannsaka skáldskap Steins, bæði íslenskum og erlendum lista- og fræðimönnum.

Bókina prýðir fjöldi ljósmynda af Steini og samferðamönnum hans. Margar þeirra eru af Steini og vinum hans í hátíðarskapi, m.a. á ölstofum heima og erlendis. Aðrar eru dapurlegar, t.d. sú sem Ragnar í Smára tók af Steini heimaliggjandi á Sléttuveginum, langt gengnum af krabbameini. Við rúmstokkinn situr Matthías Johannessen og hangandi uppi á vegg málverk eftir Þorvald Skúlason. Ljósmyndin er viðvaningslega tekin en yfir henni er samt einhver helgi.

Í stuttu máli má segja að hér sé á ferðinni mikið og ýtarlegt verk þar sem ríkulegum heimildum er haganlega raðað saman. Verkið myndar heildræna mynd af Steini en bætir fáu nýju við.

Ingi Bogi Bogason