Bjarni Bjarnason
Bjarni Bjarnason
Bjarni Bjarnason, Vaka-Helgafell 2001, 175 bls.
EINS og kunnugt er hefur íslenska glæpasagan verið í miklum uppgangi síðastliðin ár. Höfundum á borð við Arnald Indriðason, Árna Þórarinsson, Stellu Blómkvist og Viktor Arnar Ingólfsson hefur tekist að heimfæra (mis)kunnuglegar fléttur og persónugerðir þessa vinsæla afþreyingarforms upp á íslenskan veruleika með góðum árangri.

Um þessa þróun er ekkert nema gott að segja en enn skemmtilegra finnst mér þó að sjá að "hreinræktaðar" glæpasögur hafa ekki fyrr numið hér land með áðurgreindum árangri að út koma verk sem varla er hægt að líta öðruvísi á en tilbrigði eða leik með reyfaraformið. Þetta eru verk sem notfæra sér form glæpasögunnar um leið og snúið er út úr forminu, prjónað við það á nýstárlegan hátt og því gefnar nýjar og stórskemmtilegar víddir. Skáldsaga Bjarna Bjarnasonar, Mannætukonan og maður hennar er eitt dæmið um slíka sögu.

Bjarni Bjarnason hlaut Laxnessverðlaunin fyrir Mannætukonuna, en Bjarni hefur áður fengið Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar (fyrir Borgin bak við orðin) og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna (fyrir Endurkomu Maríu). Það má vera ljóst af þessari afrekaskrá að hér er enginn miðlungs höfundur á ferðinni. Verk Bjarna hafa þó ekki náð að verma efstu sæti vinsældalistanna enda er hann höfundur sem nýtir sér til hins ítrasta sköpunarmátt tungumálsins um leið og hann tekur hugarflugið af meiri krafti en flestir samtímahöfundar. Hann gerir með öðrum orðum kröfur til lesenda að þeir gangist inn í sköpunarferlið á virkan hátt en séu ekki einfaldlega neytendur í leit að afþreyingu. Þessi staðreynd fælir margan lesandann frá.

Vera kann að það að Bjarni velji sér eitt helsta form afþreyingarbókmennta - reyfarann - til listrænnar útrásar að þessu sinni sé tilraun hans til að höfða til stærri lesandahóps. Síst ber að gagnrýna það. Ég býst við að Mannætukonan og maður hennar sé aðgengilegri frásögn en tvær síðustu bækur Bjarna, Borgin bak við orðin og Næturvörður kyrrðarinnar. Stíllinn er einfaldari, auðmeltari og fyndnari, sögusvið og flétta kunnuglegri. Þetta má þó alls ekki skilja þannig að höfundur slái af hugarflugi sínu og stílgáfu, því hér er enginn "venjulegur" reyfari á ferðinni.

Í hlutverki sögumanns og aðalsöguhetju er lögreglumaðurinn Hugi Hugason. Eins og allar sannar leynilöggur á hann sér "side-kick" eða aðstoðarmann sem ber nafnið Skuggi. Þessi nöfn gefa strax vísbendingar um þann leik sem höfundur bregður á í sögunni og ekki þarf lengi að bíða þar til Hugi tekur flugið og hugarflugið tekur að rekja sundur reyfaraformið - og í raun draga það sundur og saman í háði á köflum.

Fléttan er margflókin og inniheldur æsilega eltingarleiki á bílum og bátum. Leikurinn berst víða og endalokin eru óvænt. Þetta gæti svo sem verið lýsingin á ofur venjulegri glæpasögu en slíkt er þó alls ekki um að ræða hér.

Ímyndunarafl höfundar virðist takmarkalaust og hann þenur glæpasöguformið í ólíklegustu áttir og vísar sömuleiðis í allar áttir: í kvikmyndir, tónlist, ævintýri og þjóðsögur - svo fátt eitt sé nefnt. Víða er fantasían allsráðandi og vera kann að það hugnist ekki öllum aðdáendum hefðbundinna glæpasagna en allir ættu þó að geta haft gaman af kostulegum húmor Bjarna sem alls staðar litar textann. Að mínu mati eru það þó kostulegar persónulýsingar og hnitmiðaðar lýsingar á aðstæðum, sem jafnan eru kunnuglegar úr reyfarabókmenntum en eru þó hér færðar í nýtt og spennandi samhengi, sem eru aðall bókarinnar.

Mannætukonan og maður hennar er frábær skemmtun, sannarlega bók sem kemur á óvart frá hendi Bjarna Bjarnasonar fyrir það hversu ólík hún er fyrri verkum hans. En handbragð hans leynir sér þó ekki þótt textinn hér fari sjaldan upp í sömu ljóðrænu hæðir og í tveimur síðustu bókum hans. Hér sýnir hann á sér nýja og óvænta hlið sem á örugglega eftir að stækka aðdáendahópinn og verkið er vissulega vel að verðlaunum komið.

Soffía Auður Birgisdóttir