Útlit er fyrir minni hagvöxt á næsta ári en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun í haust og að landsframleiðsla minnki um 1%, skv. endurskoðaðri spá Þjóðhagsstofnunar. Viðskiptahallinn minnkar hins vegar mun hraðar en gert var ráð fyrir í haust, spáð er 6,1% verðbólgu milli áranna 2001 og 2002 og óbreyttum kaupmætti ráðstöfunartekna. Efnahagshorfur eru taldar góðar þegar litið er til ársins 2003.
,,Sjaldan hafa orðið jafnörar breytingar á efnahagslegum skilyrðum innanlands og utan og undanfarna mánuði. Ástand og horfur á alþjóðavettvangi hafa versnað til muna í kjölfar hryðjuverkanna 11. september og birtast afleiðingarnar eins og gefur að skilja með ýmsum hætti í íslenskum þjóðarbúskap. Jafnframt hefur þróun gengis og verðlags verið óhagfelld og fyrir vikið gæti komið til endurskoðunar á launalið kjarasamninga í byrjun næsta árs. Við þetta bætist að fyrir var misvægi í efnahagslífinu vegna mikils viðskiptahalla. Af öllu þessu má ráða að þjóðhagsleg skilyrði á næsta ári verði bæði lakari og óvissari en gert var ráð fyrir," segir í endurskoðaðri þjóðhagsspá sem Þjóðhagsstofnun birti í gær.

Þjóðhagsstofnun gerir þó ráð fyrir að hagvöxtur á yfirstandandi ári verði ívið meiri en spáð var í þjóðhagsáætlun, eða 2,2% í stað 1,9%.

Þjóðarútgjöld dragast saman um 3,1% á næsta ári skv. spánni

Stofnunin spáir því nú að þjóðarútgjöld muni dragast saman um 3,1% á næsta ári í stað 2,5% í þjóðhagsáætlun sem birt var í byrjun október og að landsframleiðsla minnki um 1% á næsta ári, eða töluvert meira en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun, en þá var spáð 0,3% samdrætti. Landsframleiðsla dróst síðast saman árið 1992 eða um 3,3%.

Í endurskoðaðri spá Þjóðhagsstofnunar kemur fram að meginástæðu minnkandi þjóðarútgjalda megi rekja til samdráttar í einkaneyslu, en gert er ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um 1,5% á komandi ári. ,,Í spánni er tekið mið af því að heimili haldi áfram að greiða niður skuldir. Í ljósi fyrirhugaðra breytinga á útgjöldum ríkisins hefur áætlun um samneyslu á komandi ári lækkað og er nú gert ráð fyrir 2,7% aukningu í stað 2,9% í spánni frá því í haust. Loks er gert ráð fyrir heldur meiri samdrætti í fjárfestingu en í síðustu spá, eða 14,0% samanborið við 13,3%," segir í spánni.

Viðskiptahallinn gæti orðið 38 milljarðar 2002

Reiknað er með að viðskiptahalli minnki meira en spáð var í þjóðhagsáætlun. Þannig er talið að viðskiptahalli á þessu ári verði um 49 milljarðar króna og 38 milljarðar á árinu 2002. Til samanburðar gerði þjóðhagsáætlun ráð fyrir að hallinn yrði 59 milljarðar króna 2001 og 46 milljarðar 2002. Ef þessi spá gengur eftir mun hallinn helmingast frá því hann náði hámarki árið 2000, fara úr 10% af landsframleiðslu í tæplega 5% á næsta ári.

Útlit er fyrir lítið eitt meiri verðbólgu á þessu ári og því næsta en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun. Að mati Þjóðhagsstofnunar eru nú horfur á að verðlag hækki um 6,6% milli áranna 2000 og 2001 og um 6,1% hækkun milli áranna 2001 og 2002. Er gert ráð fyrir að verðlag hækki um 3,5% innan ársins. Þá eru talin merki um minni spennu á húsnæðismarkaði og spáir stofnunin því að nafnverð húsnæðis standi í stað á næsta ári.

Breytingar á verðbólguspá Þjóðhagsstofnunar stafa einkum af veikingu gengis og meiri launahækkunum en gert var ráð fyrir í haust. Hvað næsta ár varðar vekur Þjóðhagsstofnun þó athygli á að mikil óvissa sé um verðbólguspána vegna óstöðugleika á gjaldeyrismörkuðum og óvissu um launaþróun.

Einkaneysla dregst saman

Gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun að kaupmáttur ráðstöfunartekna stæði í stað milli áranna 2000 og 2001, en nú er talið að hann aukist um ½% á yfirstandandi ári. Spá um atvinnuleysi fyrir árið 2001 er óbreytt, eða 1,4%.

,,Þróunin það sem af er ári bendir til þess að samdráttur í einkaneyslu sé meiri en áður var reiknað með og er nú búist við að samdrátturinn nemi 2% í stað 1% í fyrri áætlun. Þetta bendir til þess að sparnaður heimilanna sé að aukast," segir í spá Þjóðhagsstofnunar.

Horfur um vöruútflutning á þessu ári hafa versnað frá fyrri spá og munar þar mestu um útflutningsframleiðslu sjávarafurða. Er nú spáð 2,8% vexti vöruútflutnings í stað 4,7% í þjóðhagsáætlun. Á næsta ári er hins vegar útlit fyrir heldur meiri vöxt vöruútflutnings en gert hafði verið ráð fyrir, sem einkum stafar af breyttum horfum um afla á þessu og næsta ári. Halli á vöruskiptum við útlönd minnkar því nokkuð á milli ára og mun nema 3,9 milljörðum samanborið við 7 milljarða í síðustu spá Þjóðhagsstofnunar.

Ýmislegt bendir til þess að spenna á vinnumarkaði sé að minnka. Spáir stofnunin 2% atvinnuleysi á næsta ári. Þjóðhagsstofnun hefur einnig endurskoðað mat sitt á kaupmætti ráðstöfunartekna og gerir nú ráð fyrir óbreyttum kaupmætti á næsta ári, en í síðustu spá var gert ráð fyrir 1% samdrætti. Ástæður styrkari kaupmáttar ráðstöfunartekna skv. spánni má rekja til launahækkana að undanförnu, breytinga á sköttum einstaklinga um næsttu áramót og vaxtalækkana.

Efnahagslífið nær sér á strik 2003

,,Þegar horft er fram yfir árið 2002 virðast efnahagshorfur góðar. Búist er við að efnahagslífið í heiminum hafi þá náð sér á strik og hagvöxtur verði um 3% á árinu 2003. Spáð er nær sama hagvexti hér á landi ef ráðist verður í áformaðar stórframkvæmdir í áliðnaði, en um 1% minni vexti án slíkra framkvæmda," segir í endurskoðaðri spá Þjóðhagsstofnunar.