KR-ingurinn Tryggvi Bjarnason og Hannes Þ. Sigurðsson úr FH fara eftir áramótin til norska úrvalsdeildarliðsins Lilleström og verða við æfingar hjá liðinu í tvo mánuði.
KR-ingurinn Tryggvi Bjarnason og Hannes Þ. Sigurðsson úr FH fara eftir áramótin til norska úrvalsdeildarliðsins Lilleström og verða við æfingar hjá liðinu í tvo mánuði. Þeir fara með liðinu í tvær æfingaferðir til Spánar, fyrst til Malaga og síðan La Manga og eftir það ætti að koma í ljós hvort þeim verða boðnir samningar við félagið.

Bæði Tryggvi og Hannes hafa verið undir smjásjánni hjá Lilleström og æfðu til að mynda með liðinu í haust og þá hafa fleiri norsk úrvalsdeildarlið sýnt þeim áhuga. Báðir eru leikmennirnir 18 ára gamlir sem stóðu sig vel með liðum sínum á nýliðinni leiktíð. Tryggvi lék 13 leiki með KR-ingum í úrvalsdeildinni í sumar og Hannes 11 og þá áttu þeir fast sæti í U-19 ára landsliðinu en leikmenn í því liði hafa vakið verðskuldaða athygli.

Hjá Lilleström hitta leikmennirnir fyrir Loga Ólafsson, fyrrum þjálfara FH-inga, sem nú er tekinn við starfi aðstoðarþjálfara hjá Lilleström. Logi tók formlega til starfa á mánudag en þá hófst undirbúningstímabil liðsins fyrir átökin í norsku úrvalsdeildinni sem hefst í apríl.

Þess má geta að tveir Íslendingar eru fyrir hjá Lilleström - Gylfi Einarsson og Indriði Sigurðsson.