ÞRÁTT fyrir að Grindvíkingar hafi ekki riðið feitum hesti frá sl. tveimur viðureignum sínum í úrvalsdeildinni í körfuknattleik eru forsvarsmenn liðsins ekkert á þeim buxunum að styrkja liðið með erlendum leikmanni fyrir næstu tvær umferðir...
ÞRÁTT fyrir að Grindvíkingar hafi ekki riðið feitum hesti frá sl. tveimur viðureignum sínum í úrvalsdeildinni í körfuknattleik eru forsvarsmenn liðsins ekkert á þeim buxunum að styrkja liðið með erlendum leikmanni fyrir næstu tvær umferðir Íslandsmótsins. Grindavík tapaði gegn ÍR á útivelli á sunnudag, 85:56, og er sem stendur í 9. sæti deildarinnar og hefur sigrað í fjórum leikjum að loknum 9 umferðum.

"Við erum sallarólegir og ætlum okkur ekki að fá erlendan leikmann fyrr en á nýju ári," sagði Guðfinnur Friðjónsson, framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

"Deildin er rekin eins og lítið fyrirtæki. Við duttum út úr bikarkeppninni í fyrstu umferð og fórum ekki alla leið í Kjörísbikarnum. Þessar keppnir gefa af sér tekjur sem við sáum fram á að fá ekki í ár og því létum við Bandaríkjamanninn Roni Bailey fara frá okkur. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti," sagði Guðfinnur.

Helgi Jónas Guðfinnsson, sem brotnaði á vísifingri vinstri handar á æfingu liðsins á dögunum, er á góðum batavegi og ætti að vera klár í slaginn í upphafi næsta árs.