ÞAÐ var hljóður hópur fólks sem gekk hægum skrefum í þungri snjókomu um miðborgina á laugardag. Kertaljós logaði í lófum flestra göngumanna en fremst í fylkingunni mátti sjá ungmenni sem báru krans þar sem á var letrað: Blessuð sé minning þeirra.
ÞAÐ var hljóður hópur fólks sem gekk hægum skrefum í þungri snjókomu um miðborgina á laugardag. Kertaljós logaði í lófum flestra göngumanna en fremst í fylkingunni mátti sjá ungmenni sem báru krans þar sem á var letrað: Blessuð sé minning þeirra. Var þar vísað til látinna vímuefnaneytenda en þeir eru ófáir sem hafa goldið líf sitt vegna eiturlyfjaneyslu og flestir þeirra ungir.

Foreldrahúsið, Samhjálp og Miðborgarstarf KFUM og K stóðu fyrir göngunni en auk fólks úr þeirra röðum gengu aðstandendur vímuefnaneytenda með til að minnast látinna ástvina. Gengið var frá Samhjálparhúsinu við Hverfisgötu upp á Laugaveg, niður Bankastræti, Austurstræti, Pósthússtræti og að Alþingishúsinu þar sem kertin voru sett niður.

Að því loknu var gengið inn í Dómkirkju þar sem kransinn var lagður við altarið og helgistund hófst þar sem Jóna Hrönn Bolladóttir miðborgarprestur flutti hugvekju. Edgar Smári söng og Vigdís Stefánsdóttir las upp úr bók sinni, Steinar, en sagan fjallar um baráttu móður vegna sonar síns sem var eiturlyfjaneytandi.