Megas
Megas
Ritstjórar: Geir Svansson og Hjálmar Sveinsson. Útgefandi: Mál og menning, kistan.is, Nýlistasafnið.
ÞAÐ er ýkjulaust hægt að halda því fram að Megas hafi verið goðsögn í íslensku samfélagi frá unga aldri - og að öllum líkindum eina goðsögnin sem hefur lifað slíkt af svo áratugum skipti. Sem dæmi um lífseigluna, hefur oftar en einu sinni frést um borgina að hann væri dauður

Eins og allar alvöru goðsagnir er hann ráðgáta sem vísar í allar áttir; óvenjulegasti maður þjóðarinnar en samt sá venjulegasti. Venjulegasti að því leyti að hann er ekki fyrir neinum, snyrtilegur maður og kurteis. Óvenjulegasti að því leyti að hann er út í gegn sjálfum sér samkvæmur og trúr.

Bókin um Megas er vel heppnað ritverk. Það hefur að geyma viðtöl við hann sjálfan - og þá sem hafa kynnst honum á lífsleiðinni - um tónlist hans og texta. Þótt ýmis atvik úr ævi hans beri á góma, eru þau undantekningalaust tengd verkum hans og til að auka skilning á þeim. Það er fjallað um tónlistarsmekk Megasar og hvernig hann hefur þróast í gegnum áratugina, sem og ljóðlistina sem er bakgrunnur að textum hans. Auk þess er bókin ríkulega skreytt myndum af Megasi, myndlistarverkum eftir hann, blöðum úr ljóðahandritum og myndum af nótnablöðum. Útkoman er áhugaverð lesning sem varpar ljósi á þann sérstæða - og stóra - heim sem hann hefur skapað inni í okkar litla samfélagi. Menn geta verið með honum eða á móti, litið á hann sem snilling eða afgreitt hann sem aumingja - en eftir lestur bókarinnar finnst manni ekkert af þessu rétt. Hann er utanvið hversdagslegar yfirlýsingar af þessu tagi; kjarninn í okkur sjálfum og um leið allt sem við þorum ekki að vera; í senn Íslendingur og vera frá annarri plánetu; óhemju skapandi listamaður sem vinnur á eyrinni. Andstæðurnar, hvort heldur er í persónuleikanum eða stöðu hans í samfélaginu, eru endalausar. Megas á alveg örugglega eftir að verða fræðimönnum mikið rannsóknarefni um ókomin ár.

Súsanna Svavarsdóttir