Sigurður Svavarsson
Sigurður Svavarsson
Sigurður Svavarsson fæddist í Reykjavík 1954. Stúdent frá Menntaskólanum við Tjörnina og lauk síðan BA-prófi í íslensku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Kenndi við Menntaskólann við Hamrahlíð í allmörg ár og starfaði þá jafnframt við bókmenntagagnrýni. Varð síðar ritstjóri hjá Máli og menningu og loks framkvæmdastjóri þar á bæ. Er nú framkvæmdastjóri hjá Eddu - miðlun og útgáfu. Eiginkona Sigurðar er Guðrún Svansdóttir líffræðingur og eiga þau tvö uppkomin börn, Svavar og Ernu.
Sigurður Svavarsson fæddist í Reykjavík 1954. Stúdent frá Menntaskólanum við Tjörnina og lauk síðan BA-prófi í íslensku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Kenndi við Menntaskólann við Hamrahlíð í allmörg ár og starfaði þá jafnframt við bókmenntagagnrýni. Varð síðar ritstjóri hjá Máli og menningu og loks framkvæmdastjóri þar á bæ. Er nú framkvæmdastjóri hjá Eddu - miðlun og útgáfu. Eiginkona Sigurðar er Guðrún Svansdóttir líffræðingur og eiga þau tvö uppkomin börn, Svavar og Ernu.

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fara fram á NASA við Austurvöll í kvöld klukkan 19. Umfang þessarar uppákomu hefur verið mjög vaxandi hin seinni ár, þannig voru í fyrra lagðar fram 28 fræðibækur og 52 skáldverk, eða 80 alls, meira en nokkru sinni fyrr en þá voru líka gefnar út fleiri bækur en nokkru sinni fyrr. Vegna Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár voru lagðar fram af útgefendum til tilnefningar alls 72 bækur. Í flokki fræðibóka, handbóka og bóka almenns efnis 25 verk en 47 bækur í flokki fagurbókmennta, þar af 10 barnabækur, 6 ljóðabækur og 4 smásagnasöfn. Forseti Íslands afhendir verðlaunin sem tilkynnt verður um um mánaðamót janúar og febrúar á næsta ári. Hann skipar einnig formann þriggja manna lokadómnefndar og hefur valið til þess starfa Þorstein Gunnarsson leikara og arkítekt.

Sigurður Svavarsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, svaraði nokkrum spurningum um Íslensku bókmenntaverðlaunin.

-Hver er saga þessara verðlauna og hverjir standa á bak við þau?

"Félag íslenskra bókaútgefenda stofnaði til verðlaunanna á 100 ára afmæli félagsins árið 1989. Tilgangurinn var sá að styrkja stöðu frumsaminna bóka, efla vandaða bókaútgáfu, auka umfjöllun um bókmenntir og hvetja til umræðna um þær."

-Hvernig er valið í tilnefningar og hverjir skipa dómnefndir?

"Í ár og í fyrra hefur félagið falið tveimur trúnaðarmönnum, sem sumir kalla einvalda, að tilnefna fimm bækur í hvorum flokki, fagurbókmenntum og ritum almenns eðlis. Þessir trúnaðarmenn eru síðan hvattir til að kalla aðra lesendur til liðs við sig, en ábyrgðin á tilnefningunum er þeirra einna. Trúnaðarmennirnir mynda síðan lokadómnefndina ásamt formanni sem skipaður er af forseta Íslands. Sú nefnd velur þær tvær bækur af hinum tíu tilnefndu sem hljóta sjálf Íslensku bókmenntaverðlaunin. Síðustu ár hefur verðlaunaafhendingin farið fram á Bessastöðum."

-Hlýtur ekki að vera umdeilt að láta "einvalda" velja úrslitabækurnar...eða næðist kannski aldrei samkomulag ef "dómnefndir" fjölluðu um málið?

"Allt þar til í fyrra höfðu þriggja manna nefndir séð um tilnefningarnar, en þá ákváðum við í stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda að breyta til, m.a. vegna ósættis sem hafði komið upp í nefndunum. Reynslan í fyrra þótti okkur svo góð að við vildum endilega reyna þá aðferð betur. Samt gerum við okkur fulla grein fyrir því að ekkert kerfi er fullkomið og þetta fyrirkomulag eins og annað munum við gera upp í ljósi reynslunnar."

-Hver eru verðlaunin að heiðrinum undanskildum?

"Þeir höfundar sem verða tilnefndir í kvöld fá minjagrip frá félaginu, silfurpappírshníf skreyttan íslenskum steini, engan eins, auk heiðursins. Þeir sem hljóta verðlaunin undir lok janúar fá hins vegar hvor um sig 750.000 krónur ásamt veglegum verðlaunagrip. Verðlaunin hækkuðu í fyrra, en voru fram að því 500.000 krónur í hvorum flokki."

-Er tilnefning ávísun á mun betri sölu og jafnvel útgáfu erlendis?

"Það hjálpar bók alltaf að komast í sviðsljósið með þessum hætti. Mestu máli skiptir það eflaust ef bækur eru tilnefndar sem lítið hafa verið til umfjöllunar og lítt áberandi í auglýsingum og kynningarstarfi. Það að hljóta verðlaunin hefur greitt höfundi leið á aðra markaði, en þar koma vitaskuld svo ótalmargir aðrir þættir til."

-Fylgjast erlendir útgefendur með þessum veitingum hér á landi?

"Ég get alltént fullyrt að þeir erlendu útgefendur sem gleggst þekkja til á íslenska bókamarkaðinum vita að það þarf umtalsvert til að standa þar fremstur meðal jafningja."

-Leggja íslenskir höfundar mikið upp úr verðlaununum?

"Það tel ég víst, í flestum tilvikum. Hins vegar eru viðhorf til allra verðlauna blendin og þessi eru þar engin undantekning."

-Er ekki yfir höfuð erfitt að velja besta verkið?

"Það hlýtur alla vega að vera skelfilega erfitt að tilnefna þær tíu bækur sem fá að keppa um lokaverðlaunin, enda verður alla jafna lífleg umræða um tilnefningarnar og sýnist þar sitt hverjum. Mér hefur hins vegar sýnst að ágæt sátt hafi verið um verðlaunahafana sjálfa, þótt oft séu fleiri en einn verðugur. Þannig er það líka með flest önnur verðlaun."

Þess má í lokin geta að í fyrra fékk Gyrðir Elíasson verðlaunin fyrir fagurbókmenntir og Guðmundur Páll Ólafsson fyrir bækur almenns efnis.