Jólakort Safnaðarfélags Grafarvogskirkju GLERLISTAVERKIÐ "Kristnitakan" eftir Leif Breiðfjörð, sem talað er um sem eina af þjóðargersemum okkar Íslendinga, prýðir jólakort Safnaðarfélagsins aftur í ár.

Jólakort Safnaðarfélags Grafarvogskirkju

GLERLISTAVERKIÐ "Kristnitakan" eftir Leif Breiðfjörð, sem talað er um sem eina af þjóðargersemum okkar Íslendinga, prýðir jólakort Safnaðarfélagsins aftur í ár. Jólakortin seldust upp í fyrra en eru nú til sölu í kirkjunni, Bókabúð Grafarvogs í Torginu við Hverafold, Bókabúðinni Grímu, Spönginni 21, og Versluninni Kíron, Brekkuhúsum 1.

Kortin er einnig hægt að fá textalaus í kirkjunni og henta þau vel við hin ýmsu tækifæri.

Aðventukvöld í Skeiðflatarkirkju í Mýrdal

AÐVENTUKVÖLD verður í Skeiðflatarkirkju í Mýrdal föstudagskvöldið 7. des. nk. kl. 20.30.

Kór Skeiðflatarkirkju syngur undir stjórn Kristínar Björnsdóttur, organista. Hjónin Zoltán og Krisztina Szklenár leika saman á orgel og horn. Jólasaga verður lesin og síðast en ekki síst munu kirkjugestir taka þátt í stundinni með almennum söng.

Að venju efnir kvenfélag Dyrhólahrepps til sölu veitinga í Ketilsstaðaskóla eftir samveruna og rennur ágóði hennar til Skeiðflatarkirkju. Fjölmennum og tökum með okkur gesti.

Sóknarprestur.

Kyrrðarstund á aðventu

NÚ þegar aðventan er orðin staðreynd, er gott að nema staðar og eiga kyrrðarstund við aðventuljós.

Kyrrðarstundir í Grafarvogskirkju eru á miðvikudögum kl. 12 með altarisgöngu og fyrirbænum.

Boðið er upp á léttan hádegisverð á vægu verði að lokinni stundinni. Allir velkomnir.