GARÐAR Karlsson tónlistarkennari andaðist á heimili sínu að morgni sunnudagsins 2. desember. Banamein hans var krabbamein. Garðar fæddist á Akureyri 10. júlí 1947, sonur hjónanna Karls Bárðarsonar (f. 1920, d. 1998) húsgagnabólstrara og Ólafar G.
GARÐAR Karlsson tónlistarkennari andaðist á heimili sínu að morgni sunnudagsins 2. desember. Banamein hans var krabbamein.

Garðar fæddist á Akureyri 10. júlí 1947, sonur hjónanna Karls Bárðarsonar (f. 1920, d. 1998) húsgagnabólstrara og Ólafar G. Jónsdóttur Trampe (f. 1924), húsmóður.

Garðar lauk námi í húsgagnasmíði hjá Ólafi Ágústssyni og einnig nam hann húsgagnabólstrun hjá föður sínum og starfaði þar um nokkurra ára skeið.

Árið 1976 hóf Garðar störf við Hrafnagilsskóla í Eyjafirði. Var hann húsvörður og smíðakennari fyrstu árin en kenndi síðan ýmsar greinar og hafði umsjón með tónlistarkennslu og kórstarfi skólans. Garðar sótti réttindanám við Kennaraskólann meðfram störfum sínum og aflaði sér síðar skólastjórnunarréttinda. Árin 1983-1992 var hann skólastjóri við Barnaskólann í Laugalandi og síðan skólastjóri við Grunnskóla Skútustaðahrepps árin 1992 -1996. Hann kom aftur til starfa við Hrafnagilsskóla árið 1996 og var einnig kennari við Tónlistarskóla Eyjafjarðar.

Garðar var tónlistarmaður af lífi og sál og eftir hann liggja fjölmargar og fjölbreyttar tónsmíðar. Þegar Garðar lést var hann langt kominn við undirbúning geisladisks með einsöngslögum sínum og mun fjölskylda hans og nánasta samstarfsfólk ljúka því verki og sjá um útgáfu og dreifingu.

Eftirlifandi eiginkona Garðars er Steingerður Axelsdóttir og eignuðust þau fjögur börn.