ÚTLIT er fyrir um 500 milljóna króna halla á rekstri Landspítala - háskólasjúkrahúss á árinu, að sögn Önnu Lilju Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga, en eftir 10 mánuði ársins er hallinn 485 milljónir króna.
ÚTLIT er fyrir um 500 milljóna króna halla á rekstri Landspítala - háskólasjúkrahúss á árinu, að sögn Önnu Lilju Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga, en eftir 10 mánuði ársins er hallinn 485 milljónir króna. Eru það 2,8% frávik frá fjárheimildum tímabilsins. Anna Lilja segir um 300 milljónir til komnar vegna breyttra forsendna í verðlagi, ekki síst vegna hækkunar á ýmsum rekstrarvörum sem spítalinn kaupir.

Í frumvarpi til fjáraukalaga er gert ráð fyrir 200 milljóna króna viðbótarframlagi til Landspítalans. Anna Lilja segir ljóst að annaðhvort verði að draga úr þjónustu eða fá enn frekara framlag til að mæta hallanum. Telur hún ósanngjarnt að spítalinn þurfi að draga úr þjónustu þegar verðlagsforsendur hafi breyst svo og kveðst vona að takist að finna leið til að rétta stöðuna af. "Óhagstæð verðlags- og gengisþróun á árinu er aðalástæðan fyrir framúrkeyrslu á spítalanum og er áríðandi að fjármálayfirvöld leiðrétti þann mismun," segir í greinargerð Önnu Lilju.

Á fyrstu 10 mánuðunum eru launagjöld 1,7% hærri en áætlað var og rekstrargjöld eru 6,9% umfram áætlun. Anna Lilja segir lækninga- og hjúkrunarvörur hafa hækkað um 16,6% milli ára og rannsóknarvörur um 28%. Í fyrrnefnda flokknum eru m.a. hjartagangráðar, innæðanet vegna kransæðaaðgerða og varahlutir í liðskiptaaðgerðir. Dæmi um hækkun á rannsóknarvörum eru efni sem notuð eru í rannsóknir á blóðsýnum og fleira og segir hún þessa liði hafa hækkað svo umtalsvert vegna gengisþróunarinnar.