ÍSLENSKIR aðalverktakar hf, ÍAV, NCC International AB og Hochtief hafa undirritað samstarfssamning um þátttöku í forvali vegna tilboðs í byggingu Kárahnjúkavirkjunar. NCC International AB leiðir tilboðsgerð verksins.
ÍSLENSKIR aðalverktakar hf, ÍAV, NCC International AB og Hochtief hafa undirritað samstarfssamning um þátttöku í forvali vegna tilboðs í byggingu Kárahnjúkavirkjunar. NCC International AB leiðir tilboðsgerð verksins. NCC International AB starfar við fasteigna- og mannvirkjagerð á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum með heimamarkaði í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Póllandi. Hjá fyrirtækinu starfa yfir 26 þúsund starfsmenn að verkefnum víða um heim og var velta fyrirtækisins um 4 milljarðar Bandaríkjadala, tæplega 430 milljarðar íslenskra króna, í fyrra. Hochtief var stofnað árið 1875 og er stærsta verktakafyrirtæki Þýskalands, samkvæmt upplýsingum frá ÍAV, og eitt það stærsta í Evrópu. Unnið var að verkefnum fyrir tæplega 10 milljarða Bandaríkjadala í fyrra og voru 20% í Þýskalandi en 80% víðs vegar annars staðar í heiminum. Hochtief hannar, fjármagnar, byggir og starfrækir mannvirki af öllum gerðum. Um 39 þúsund starfmenn vinna hjá fyrirtækinu.

Nýjustu verkefni ÍAV í byggingu virkjana eru Hágöngumiðlun sem afhent var Landsvirkjun árið 1998 og síðan er ÍAV um þessar mundir að ljúka við nýjustu virkjun Landsvirkjunar, þ.e. Vatnsfellsvirkjun.