HLÝSJÓRINN að sunnan fyrir Vesturlandi er enn vel heitur, eins og hann hefur verið á þessum tíma árs undanfarin 5 ár. Seltan er aftur á móti lægri en hún hefur verið sl. fjögur ár.
HLÝSJÓRINN að sunnan fyrir Vesturlandi er enn vel heitur, eins og hann hefur verið á þessum tíma árs undanfarin 5 ár. Seltan er aftur á móti lægri en hún hefur verið sl. fjögur ár. Þetta eru helstu niðurstöður mælinga Hafrannsóknastofnunarinnar á ástandi sjávar á miðunum í kringum landið.

Hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson fór í rannsóknaleiðangur dagana 5.-27. nóvember til mælinga á ástandi sjávar á miðunum umhverfis landið. Önnur verkefni leiðangursins voru könnun á ástandi loðnustofnsins og mælingar á smásíld í Eyjafirði og á Skjálfandaflóa.

Í tilkynningu segir að hið hlýja veðurfar í haust endurspeglist í því að enn gæti ekki kælingar frá landinu, eins og venja er á þessum árstíma, og var t.d. hiti við innanverðan Faxaflóa yfir 8 gráður á Celsíus.

Enginn ís var í Grænlandssundi og fannst hann ekki fyrr en vel uppi á grænlenska landgrunninu. Yfirborðssjór var aftur á móti vel ferskur út undir mitt sund og því skilyrði fyrir snögga nýísmyndun fyrir hendi þegar veður kólnar.

Almennt var streymi hlýsjávarins að sunnan í nóvember í góðu meðallagi og áhrifa hans gætti inn á norðurmið allt austur fyrir Langanes en þó heldur minna á sama tíma í fyrra. Skilin við kalda sjóinn að norðan voru tiltölulega nálægt landi fyrir Vestfjörðum en aftur á móti djúpt undan Norðurlandi. Í köldum Austur-Íslandsstraumnum var hitinn í efstu hundrað metrunum vel yfir 0°C en seltan var undir 34,7. Því gæti mikil vetrarkæling valdið nýísmyndun á svæðinu.