ÁTTFÆTLUMAUR, sem lifir á því að sjúga blóð úr rottum og öðrum nagdýrum, fannst hér á landi í sumar á stökkmús í heimahúsi og hafði einnig lagst á heimilisfólkið og valdið verulegum óþægindum.
ÁTTFÆTLUMAUR, sem lifir á því að sjúga blóð úr rottum og öðrum nagdýrum, fannst hér á landi í sumar á stökkmús í heimahúsi og hafði einnig lagst á heimilisfólkið og valdið verulegum óþægindum. Við eftirgrennslan fannst maurinn einnig í stökkmúsabúri í versluninni sem selt hafði gæludýrið.

Þetta kemur fram í grein eftir Karl Skírnisson í nýju tölublaði af Læknablaðinu. Þar kemur fram að maurinn gengur iðulega undir nafninu hitabeltis-rottumaurinn og að kjöraðstæður fyrir hann eru 24-26 stiga hiti og 47% raki. Kvenmaurarnir verpa um 100 eggjum um ævina og er eggjunum orpið í hreiður nagdýrsins. Það tekur maurana einungis 11-16 daga að ná kynþroska og geta fullorðnir maurar lifað í 62-70 daga. Þeir verða um 1 mm á lengd og sjást auðveldlega með berum augum. Maurarnir eru allvel hreyfanlegir og geta flakkað alllangt frá uppvaxtarstað í leit að blóði. Vel þekkt er að þeir leggjast á fólk þar sem rottur hafa haldið sig, en þeir geta ekki lifað á mönnum að staðaldri.

Fram kemur einnig að iðulega verði menn varir við sársauka þegar maurinn stingi til að sjúga blóð og dæmigerð ofnæmis- eða kláðabóla myndist þar sem stungan sé. Drengurinn sem átt hafi ofangreinda stökkmús hafi verið með 200-300 mismunandi gömul bit eftir maurinn, en búrið var við höfðalagið þar sem hann svaf.

Fannst fyrir þremur áratugum

Í greininni kemur einnig fram að áður hafi orðið vart við maurinn hér á landi fyrir um þremur áratugum. Sjö tilfelli hafi þá verið skráð í Hafnarfirði og eitt í Reykjavík, en í öllum tilvikum var talið að óværan hefði borist frá hreiðrum brúnrotta. Héldu rotturnar oftast til undir gisnum gólffjölum þar sem maurarnir komust í gegn. Svo virðist sem maurinn hafi dáið út því hans hefur ekki orðið vart síðan fyrr en nú. Fannst hann til dæmis ekki við rannsókn á brúnrottum í Reykjavík 1997-98 og hefur aldrei fundist á íslenskum húsa- og hagamúsum.

Fram kemur að það eigi að vera hægt að útrýma maurnum með því að hreinsa búr gæludýranna vandlega á 10 daga fresti í nokkur skipti sé þess gætt að henda öllu hreiðurefni og rusli í lokuðum plastpoka, úða skordýraeitri á alla fleti búrsins og meðhöndla dýrin í upphafi með eitri sem drepur maura. Leiki grunur á að maurar hafi borist út fyrir búrið eigi að ryksuga herbergið vel og láta úða mauraeitri þar.

Í greininni er getum að því leitt að maurinn kunni hugsanlega að hafa borist hingað til lands með stökkmúsum eða einhverjum öðrum nagdýrum, til dæmis kanínum eða hömstrum, sem fengist hefur leyfi til að flytja inn, en einnig mögulega með ólöglega innfluttum gæludýrum, en eitthvað virðist vera um slíkan innflutning. Er jafnframt á það bent að eigendur sumra gæludýrabúða ali upp gæludýrin sem höfð séu til sölu og geti þar af leiðandi fylgst með heilbrigði þeirra. Hitt þekkist einnig að dýr séu keypt og seld sem alin séu upp í heimahúsum og sú aðferð bjóði upp á dreifingu smits af margvíslegum toga.