BANDARÍSKAR leyniþjónustustofnanir hafa komist að þeirri niðurstöðu, að Osama bin Laden og al-Qaeda-hryðjuverkasamtökin hafi verið komin lengra áleiðis en áður var talið með smíði geislasprengju.
BANDARÍSKAR leyniþjónustustofnanir hafa komist að þeirri niðurstöðu, að Osama bin Laden og al-Qaeda-hryðjuverkasamtökin hafi verið komin lengra áleiðis en áður var talið með smíði geislasprengju. Samkvæmt áætlununum átti að nota venjulegt sprengiefni til að dreifa geislavirkum efnum yfir stórt svæði. Er þetta haft eftir heimildamönnum í Bandaríkjunum og erlendis.

Sumt af þessum upplýsingum hefur komið fram við yfirheyrslur yfir félögum í al-Qaeda eða samstarfsmönnum þeirra og sumt má lesa úr þeim gögnum, sem fundist hafa í bækistöðum hryðjuverkamannanna í Afganistan. Þar að auki eru til heimildir um fund á síðasta ári þar sem einn samstarfsmanna bin Ladens veifaði framan í hann hylki með geislavirku efni til marks um, að áætlunin um smíði geislasprengjunnar væri í fullum gangi.

Stórhert eftirlit á landamærum

Bandaríkjastjórn fór fram á það í síðasta mánuði við helstu bandalagsríki sín, að þau könnuðu hvort umræddur samstarfsmaður bin Ladens hefði komið þangað og þá hugsanlega með geislavirk efni. Vegna þessa hefur eftirlit við landamæri verið stórhert og meðal annars eru notuð við það tæki, sem mæla geislun.

Það eru engar sannanir enn fyrir því, að bin Laden ráði yfir geislasprengju en mörg ár eru síðan hann lýsti opinberlega yfir áhuga sínum á því.

Takist bin Laden og mönnum hans að sprengja geislasprengju yrði það gífurlegt áfall í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum og þess vegna er nú allt gert til að koma í veg fyrir það. Sagt er, að þessar áhyggjur séu hluti af þeirri viðvörun, sem Bandaríkjastjórn lét frá sér fara í fyrradag, þar sem fólk var hvatt til að vera á varðbergi vegna hugsanlegs hryðjuverks.

Bandarískir leyniþjónustumenn leita ekki aðeins að vísbendingum um, að hryðjuverkamennirnir hafi reynt að smíða geislasprengju, heldur einnig hvort þeir hafi reynt að koma saman frumstæðri kjarnorkusprengju. Geislasprengju, sem líka er kölluð "skítuga sprengjan", er unnt að smíða með því að setja saman í einn pakka notaða eldsneytisstöng úr kjarnorkuveri og venjulegt sprengiefni. Er þá tilgangurinn ekki sá að valda miklu tjóni með sjálfri sprengingunni, heldur hinn að geislamenga ákveðið svæði, til dæmis stóran borgarhluta. Afleiðingar raunverulegrar kjarnorkusprengingar yrðu að sjálfsögðu miklu meiri.

Fullyrt er, að teikningar af geislasprengju hafi fundist í bækistöðvum al-Qaeda á síðustu vikum og mikið af skjölum um kjarnorkuvopn almennt. Slíkar upplýsingar má þó fá eftir ýmsum leiðum, til dæmis á Netinu.

Úran frá Suður-Afríku

Vitað er, að bin Laden hefur lengi látið sig dreyma um að komast yfir kjarnorkuvopn. Jamal Ahmed, Súdani, sem vann fyrir bin Laden í níu ár, skýrði frá því fyrir rétti í febrúar sl., að al-Qaeda hefði reynt að komast yfir geislavirk efni allt frá því snemma á síðasta áratug. Sagði hann, að bin Laden hefði skipað sér að kaupa úran af fyrrverandi foringja í súdanska hernum en hann kvaðst hafa komist yfir það í Suður-Afríku. Átti söluverðið að vera um 160 millj. ísl. kr.

Fadl gekk frá samningi um kaupin og fékk greiddar fyrir rúmlega milljón ísl. kr. Hann segist þó ekki vita hvort af kaupunum varð. Kom þetta fram þegar Fadl bar vitni í réttarhöldum yfir fjórum liðsmönnum al-Qaeda en þeir voru sakaðir um aðild að sprengjuárásunum á bandarísk sendiráð í Afríku í ágúst 1998.

Bin Laden sagði í viðtali við pakistanskan blaðamanna í síðasta mánuði, að hreyfing hans réði jafnt yfir efna- sem kjarnorkuvopnum. Hann kvaðst þó ekki mundu beita þeim nema Bandaríkjamenn beittu slíkum vopnum að fyrrabragði. 1998 sagði hann, að það væri "trúarleg skylda" að komast yfir gjöreyðingarvopn. "Ef ég ræð yfir þeim, þá er guði svo fyrir að þakka," sagði hann.

Stjórnvöld í Pakistan tóku nýlega tvo kjarneðlisfræðinga til yfirheyrslu, menn, sem áttu þátt í að gera Pakistan að kjarnorkuveldi og hafa lengi verið í sambandi við talibana og al-Qaeda. Kváðust þeir aðeins hafa unnið að hjálparstörfum í Afganistan og var þá sleppt en nýlega voru yfirheyrslur yfir þeim hafnar að nýju. Annar mannanna er Sultan Bashiruddin Mahmood, sérfræðingur í öllu, sem lýtur að plútóni, sem notað er í flestar kjarnorkusprengjur. 1999 lýsti hann opinberlega yfir, að Pakistanar ættu að aðstoða önnur múslímaríki við að koma sér upp kjarnavopnum og lýsti að auki yfir stuðningi við talibana. Var hann þá látinn hætta vinnu við kjarnorkuáætlun stjórnarinnar og fengið skrifstofustarf.

Reyndu að komast inn í kjarnorkugeymslur

Líklegast þykir, að al-Qaeda hafi reynt að komast yfir geislavirk efni í Rússlandi eða Pakistan. Hafa rússneskir embættismenn sagt frá mörgum tilraunum til að stela auðguðu úrani eða plútóni frá 1990 og í síðasta mánuði sagði rússneskur herforingi, að hryðjuverkamenn hefðu nýlega gert tvær tilraunir til að komast inn í háleynilegar kjarnorkugeymslur, svokallaðar "S-geymslur".

Washington. Los Angeles Times.