Michael Jordan
Michael Jordan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MICHAEL Jordan leitaði á kunnuglegar slóðir eftir leik Washington Wizards gegn Orlando Magic í NBA-deildinni á laugardag.
MICHAEL Jordan leitaði á kunnuglegar slóðir eftir leik Washington Wizards gegn Orlando Magic í NBA-deildinni á laugardag. Körfuknattleiksstjarnan var tekin út af þegar um 4 mínútur lifðu af leiknum vegna meiðsla á hné og eftir leikinn flaug Jordan til Chicago þar sem hann hitti sjúkraþjálfarann John Heffron. Jordan treystir víst engum betur fyrir þeim vandamálum sem hann glímir við í hnénu. "Það hefur þurft að "tappa" liðvökva af hnénu einu sinni í vetur og það var gengið úr skugga um að engar skemmdir væru á liðböndum. Líkaminn er að senda skilaboð og ég verð að taka mark á þeim," sagði Jordan við fjölmiðla vestanhafs en hann mun ekki leika með Washington Wizards í næstu leikjum.

Jordan er þekktur fyrir allt annað en að missa úr leiki vegna meiðsla en hann missti síðast úr leik 5. mars árið 1993 vegna ígerðar á fæti.

Doug Collins, þjálfari Washington, sagði að Jordan hefði ekki farið sjálfviljugur út af gegn Orlando.

"Við þurftum að taka ákvörðun, hann vildi leika áfram, en við mátum stöðuna á þann veg að hann fengi ekki að leika nánast á "öðrum fætinum". Keppnistímabilið er langt og við verðum að vera skynsamir," sagði Collins. Jordan æfir nánast ekkert með liði Washington Wizards og segir Collins að það sé með ráðum gert. "Við vitum hvað Jordan getur og hann þarf því ekki að æfa eins mikið og aðrir leikmenn liðsins.

Ef hann er ferskur í leikjunum getur hann leikið í 35 mínútur á hverju kvöldi," sagði Collins. Jordan hefur leikið 16 leiki með Washington í vetur og á korti hér til hliðar má lesa að lítill munur er á tölfræðiþáttum hans nú og á keppnistímabilunum 1994-1995 og 1997-1998. Jordan er í 6. sæti yfir stigahæstu leikmenn NBA á yfirstandandi tímabili.