REAL Madrid átti ekki í teljandi vandræðum með að sigra Panathinaikos í C-riðli í gær. Helguera og Raul sáu um að skora og sá síðarnefndi tvívegis.
REAL Madrid átti ekki í teljandi vandræðum með að sigra Panathinaikos í C-riðli í gær. Helguera og Raul sáu um að skora og sá síðarnefndi tvívegis. Spánska liðið lék vel og það er engin tilviljun að margir telja það líklegast til afreka í Meistaradeildinni í ár. Sigurinn hefði hæglega getað orðið nokkru stærri, þó svo Claude Makelele og Steve McManaman væru ekki með, en heimamenn urðu að sætta sig við þrjú stig og þrjú mörk að þessu sinni.

Spörtumenn sýna klærnar

Leikmenn Spörtu Prag sýndu klækindi og klærnar í gær þegar þeir heimsóttu Portó í Portúgal. Eftir að hafa varist fimum Portúgölum með ágætum langt fram í síðari hálfleik náði Libor Sionko að skora á 75. mínútu og það reyndist sigurmarkið.

Spartverjar töpuðu 3:2 heima fyrir Real í fyrstu umferðinni og þóttu leika vel. Liðinu hefur hins vegar gengið illa á útivelli og sigurinn í gær var þriðji sigur liðsins á útivelli í síðustu 16 leikjum.

Portó var miklu betri aðilinn, átti tvö stangarskot og nokkur fín færi en boltinn vildi hreinlega ekki í netið.