LANDSBANKINN-Landsbréf spáir því að verðbólga innan ársins 2001 verði 8,7% í ljósi þess að gengið hefur gefið eftir um rúm 4% frá byrjun október og að verðbólgan verði 6,6% milli ára.
LANDSBANKINN-Landsbréf spáir því að verðbólga innan ársins 2001 verði 8,7% í ljósi þess að gengið hefur gefið eftir um rúm 4% frá byrjun október og að verðbólgan verði 6,6% milli ára. Þá gerir ný verðbólguspá Landsbankans-Landsbréfa, sem birt var í gær, ráð fyrir 4,9% verðbólgu innan ársins 2002 og 6,7% milli ára 2001 og 2002.

Forsendur í spánni eru að krónan styrkist nokkuð á fyrri hluta ársins. Ennfremur er gert ráð fyrir að nokkuð verði um verðhækkanir tilkomnar vegna gengisfallsins á þessu ári, en þær verði að mestu yfirgengnar um mitt árið. Þá er gert ráð fyrir að húsnæðisverð muni lítið hækka og að kjarasamningar haldi.

Spá Landsbankans-Landsbréfa er nokkru hærri en 3,4% spá Þjóðhagsstofnunar fyrir verðbólgu innan ársins frá því í byrjun október og 4% spá Seðlabankans fyrir verðbólgu innan ársins frá því í byrjun nóvember. Tekið er fram í verðbólguspá Landsbankans-Landsbréfa að vegna gengisfallsins í október og nóvember séu þó forsendur í báðum spánum aðrar en spá Landsbankans-Landsbréfa og líklegt að nýjar spár frá Seðlabankanum og Þjóðhagsstofnun verði meira í takt við ofangreindar tölur.

Spáir 0,4% hækkun á vísitölu milli mánaða

Landsbankinn-Landsbréf spáir 0,4% hækkun á vísitölu neysluverðs milli nóvember og desember. Gangi spáin eftir verður vísitala neysluverðs miðað við verðlag í desemberbyrjun 219,3 stig og mun vísitalan þá hafa hækkað um 8,5% síðustu 12 mánuði.

Þeir þættir, sem helst hafa áhrif á spá um vísitöluna eru lækkun bensíns um 1,50 krónur og vegur það til 0,08% lækkunar á vísitölunni.

Gert er ráð fyrir 0,3% hækkun á húsnæði en það er minni hækkun en meðaltal undanfarinna ára enda sýna síðustu mælingar að dregið hefur úr verðhækkunum á húsnæðismarkaði. Krónan veiktist um 2,5% í mánuðinum og gerir spáin ráð fyrir að eitthvað af þeirri veikingu hafi skilað sér um mánaðamótin í hækkun á innfluttri vöru og þá helst matvöru.