PÁLL Pétursson félagsmálaráðherra segir að stefnt sé að því að eyða biðlistum eftir lögbundinni þjónustu við fatlaða fyrir árslok 2005.
PÁLL Pétursson félagsmálaráðherra segir að stefnt sé að því að eyða biðlistum eftir lögbundinni þjónustu við fatlaða fyrir árslok 2005. Hins vegar sé það ekki sett upp sem skilyrði í skýrslu biðlistanefndar, að deila biðlistum niður á ákveðin ár og saxa þannig jafnt á þá. "Hitt er svo annað mál, að ef það er slaki eitt árið, eins og því miður verður á næsta ári, þá verður að gera enn betur á þarnæsta ári," segir Páll inntur eftir viðbrögðum við harðri gagnrýni á stjórnvöld á baráttufundi á alþjóðadegi fatlaðra á mánudag, vegna biðlista sem eru eftir þjónustu við fatlaða.

Á fundinum kom fram í máli Halldórs Gunnarssonar, formanns Þroskahjálpar, að þegar fjárlagafrumvarpið hefði litið dagsins ljós í haust, hefði orðið ljóst að biðlistarnir myndu lengjast á næsta ári. Hefði hann ásamt Friðriki Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Þroskahjálpar, gengið á fund félagsmálaráðherra í kjölfarið en það viðtal hefði orðið þeim mikið áfall þar sem engin efnisleg umræða um málið hefði farið fram.

"Ég hlýddi á mál þeirra og man ekki betur en fundurinn færi mjög kurteislega fram," segir Páll. "Hins vegar gat ég ekki komið með yfirlýsingar um að ég myndi verða við kröfum þeirra því mér var ekki ljóst hvort ég gæti það. Þegar fjárlögin eru gagnrýnd er rétt að hafa í huga, að frá því fjárlagafrumvarpið var lagt fram og Halldór og Friðrik gengu á minn fund hafa fjárveitingar til málaflokks fatlaðra hækkað um 200 milljónir, eða úr 4,4 milljörðum króna í 4,6 milljarða. Í fjáraukalagafrumvarpi hafa framlög til málaflokksins hækkað um 90 milljónir. Upphæðin kann að hækka enn frekar, enda er ekki búið að loka fjárlögum."

Páll segir aðspurður, að á annan milljarð króna kosti að eyða þeim biðlistunum.

Hann segir aðspurður að allar líkur séu á því að það takist að eyða biðlistum samkvæmt þeim áætlunum sem nú liggja fyrir um eyðingu þeirra. "Það er góður tími til stefnu, en hitt er annað mál að það er ágreiningur um hve margir eru á biðlistum. Það er verið að telja sama fólkið aftur og aftur, sem óskar eftir fleiri en einu úrræði. Samkvæmt skýrslu biðlistanefndar var talin þörf fyrir 80 ný búsetuúrræði á höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili."