Tilraunamennska Trabants gengur upp að mati Heimis Snorrasonar.
Tilraunamennska Trabants gengur upp að mati Heimis Snorrasonar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Trabant er Viðar Hákon Gíslason og Þorvaldur H. Gröndal. Þeir sjá um allra handa hljófæraleik ásamt tölvuforritun. Þeim til aðstoðar eru Úlfur Eldjárn, Hlynur Aðils Vilmarsson, Ó. Jónsson, Egill Sæbjörnsson, Freyr, Ragnar Kjartansson, Finn B.

Trabant er Viðar Hákon Gíslason og Þorvaldur H. Gröndal. Þeir sjá um allra handa hljófæraleik ásamt tölvuforritun. Þeim til aðstoðar eru Úlfur Eldjárn, Hlynur Aðils Vilmarsson, Ó. Jónsson, Egill Sæbjörnsson, Freyr, Ragnar Kjartansson, Finn B., Ragnheiður Eiríksdóttir, Samúel J. Samúelsson, Ylfa Mist og Einar S.H. Þórvaldur Skúlason sér um viðbótarforritun og einnig um upptökur ásamt Trabant. Finn B. hljóðblandar og umslagshönnun er í höndum Ólafs Breiðfjörð. TMT/Thule Records gefur út. Lengd: 62 mínútur.

FRUMRAUN dúettsins Trabant, Moment of truth, er góður gripur. Þeir Viðar og Þorvaldur hafa valið þá leið að sjóða saman raftóna og hefðbundinn hljóðfæraleik í ómþýða hljómsúpu með svolítið gamaldags yfirbragði. Ekki óþekkt aðferð nú þegar mönnum er loks orðið ljóst að ekkert er undir sólu nýtt og óþarfi að fara í felur með dálæti sitt á eldri tónum. Með þetta sagt tekst þeim samt oftast að sneiða fram hjá því gárungalega hallærispoppi sem þykir vís nokkuð sniðugt nú um stundir en þeir sem stunda þann gjörning sækja gjarnan í sama sarp og Trabant gerir. Það sem skilur verk þeirra frá öðrum er hins vegar hversu frjálslega þeir fara með formið. Áhrifin koma úr öllum áttum og fjölbreytnin er höfð í fyrirrúmi. Ekkert er heilagt svo lengi sem það er skemmtilegt. Ég sé gripinn í heild sinni sem sambland rafrænnar fortíðarhyggju Jimmy Tenors og samsuðurokki Becks. Þetta er þó bara grunntónninn og að sjálfsögðu mörg húðlög þar ofan á sem hægt er að kjamsa á án þess að bíta í "tenor"-kjúkur eða "beck"-brjósk.

Inngangurinn leggur línurnar fyrir það sem koma skal. "Enter spacebar" er værukær orgelhjalandi sem vex eftir því sem líður á. Orgelskelfirinn Úlfur Eldjárn notar einhver tól úr vopnabúri sínu til að mynda nýja vöru í gömlum umbúðum og gerir það vel. Þessu er fram haldið í öðru laginu, "Org Org", þar sem hammondið dregur upp myndir af loftfimleikaatriði í sirkus og breytist svo í stef úr gömlum lögguþætti. Í "Bluesbrakers" er Beck lifandi kominn í fönkstellingum og "Old Elgar" er einhvers konar kúrekaóður. "Bahama Banana" hefði að mínu viti getað heppnast betur. Beach Boys svífa yfir vötnum í strandsveiflu en raddbeitingin er leiðigjörn og stefið ofnotað. Þeir bæta strax úr skák með "Lady Elephant" sem er hreint frábært með sinn berstrípaða skemmtarahljóm og skemmtilega samsuðu saxófóns og raddar. "Retard part 1 og 2" eru einnig til fyrirmyndar og ekki frá því að fyrrihlutinn sæki nokkuð í "Wilmont" með Andrew Wetherhall með dreymandi sambataktinn í grunninn. "Himnalalala" er réttnefnt þar sem hástemmningin ræður ríkjum og loftbelgdur trompetinn skapar háfjallasýn. Plötunni lýkur á "Superman" þar sem Ragnar Kjartansson kyrjar fallega Bacharach-ballöðu. Önnur lög eru flest góð og hefur diskurinn sterka heildarmynd þótt viðfangsefnin séu margslungin. Þess ber einnig að geta að umslagshönnun Ólafs Breiðfjörð er sérlega skemmtileg.

Þetta er marghliða verk og það sem kannski helst kemur á óvart er hversu vel tekst til. Það er hætt við því að menn þrjóti örendi í svona tilraunamennsku og hún leiði til lítils annars en hugmynda sem ekki næst að raungera í hita leiksins. Þeim Viðari og Þorvaldi hefur hins vegar tekist áætlunarverk sitt með eindæmum vel og búið til sneiðmynd af nýjungum og poppi úr glatkistunni.

Heimir Snorrason