Árni Tómas Ragnarsson
Árni Tómas Ragnarsson
Enn, segir Árni Tómas Ragnarsson, hafa ekki verið gerðar teikningar að tónlistarhúsinu.

RÁÐSTEFNA um framtíð Íslensku óperunnar, sem haldin var í síðustu viku, var mjög gagnleg fyrir umræðuna um tónlistarhús í Reykjavík. Fram kom að enn hafa ekki verið gerðar teikningar að tónlistarhúsinu. Það er gott því þá er ekki of seint að hafa þar stórt svið og aðstöðu fyrir óperu og ballett og aðrar stórar sviðssýningar. Hitt er ekki síður mikilvægt að á ráðstefnunni gaf Ólafur Hjálmarson hljómburðarsérfræðingur glögga lýsingu á því að hljómburður fyrir óperu og sinfóníska tónlist fer mæta vel saman. Öðru hefur þó ítrekað verið haldið fram af þeim sem ekki hafa viljað óperu í tónlistarhúsi og hefur það löngum verið ein helsta mótbára þeirra.

Eftir stendur að það mun auka á kostnað við byggingu hússins að hafa þar aðstöðu fyrir óperu. Þar vegur á móti að allir eru sammála um að bæta verði aðstöðu Íslensku óperunnar og einnig það mun kosta mikið fé. Rekstur óperunnar yrði í staðinn miklu hagkvæmari og betur færi um listafólkið. Að auki gætu margir aðrir nýtt sér þessa aðstöðu. Gert er ráð fyrir því að Sinfóníuhljómsveit Íslands noti hinn stóra sal hússins 50-60 kvöld á ári og óperan þarf varla fleiri en 30-40 kvöld á ári. Það verður því nóg aðstaða fyrir þær báðar og marga aðra í þessum sal. Augljóst er því að til langs tíma litið er það besti kosturinn að bæði sinfóníuhljómsveitin og óperan verði með aðstöðu í tónlistarhúsinu.

Ég skora á tónlistarunnendur að taka nú höndum saman og opna þessa umræðu í alvöru. Alltof lengi hafa þeir af minnimáttarkennd ekki þorað að tala uppphátt um tónlistarhúsið af hræðslu við að "ágreiningur" í röðum þeirra muni fæla ráðamenn frá því að styðja málið.

Þeir ráðamenn sem kinnroðalaust geta aftur og aftur sætt sig við að helstu tónlistarmönnum heims sé boðið að koma fram í Laugardalshöll eiga ekki slíka hræðsluvirðingu skilið. Sjálfir hafa þeir ekki látið svo lítið að opinbera sjónarmið sín í þessu mikilvæga máli.

Vera má að við Íslendingar höfum ekki efni á að byggja tónlistarhús einmitt núna, en við getum þó látið teikna það. Svo mikið er víst að við höfum ekki efni á að teikna og byggja "vitlaust" tónlistarhús - við fáum bara þetta eina tækifæri til að taka rétta ákvörðun.

Höfundur er læknir.