Sigurður Flosason, sópran- altó og barýtonsaxófóna, blístrur og slagverk; Gunnar Gunnarsson, Klais-orgel Hallgrímskirkju. Nú kemur heimsins hjálparráð, Ó Jesúbarn blítt, Í Betlehem er barn oss fætt, Jólasveinar ganga um gólf, Heims um ból, Sjá himins opnast hlið, Maríukvæði, Bjart er yfir Betlehem, Hátíð fer að höndum ein, Það aldin út er sprungið, Gjör dyrnar breiðar, Með gleðiraust og helgum hljóm, Nú árið er liðið. Edda miðlun og útgáfa 2001. ÓMI Jazz 004.
SÁLMAR lífsins var einn af metsöludiskum síðasta árs og ekki efa ég að Sálmar jólanna muni renna út áður en hátíð ljóssins gengur í garð. Það væri vel, því leitun er á jafn vönduðum og frumlegum diski helguðum jólatónlist. Ekki vantar framboðið; flest rusl, annað frábærlega vandaður flutningur - en án þeirrar skapandi tónhugsunar sem er aðal disks Sigurðar Flosasonar og Gunnars Gunnarssonar.

Þegar Sigurður og Gunnar héldu fyrstu sálmatónleika sína í Hallgrímskirkju var Heims um ból á dagskrá - jólasálmur allra jólasálma lúterskunnar. Hann hreif viðstadda, ekki síst djassunnendur, því þarna léku þeir félagar klassískan blús áður en laglínan læddist inn í lokin - enda afkynnti Sigurður sálm Grübers sem Heims um blús. Hann var ekki að finna á Sálmum lífsins, enda þegar fædd sú hugmynd að gefa út disk með jólasálmum, sem nú er kominn út.

Eins og á fyrri sálmadiski þeirra félaga er hér blandað saman gömlum sálmum sem almenningur þekkir og þeim sem hinir kirkjuræknu þekkja frekar svo og tveimur íslenskum lögum frá okkar tímum: Maríukvæði Atla Heimis og hafnfirska söngnum hans Friðriks Bjarnasonar; Jólasveinar ganga um gólf. Maríukvæði samdi Atli við kvæði Laxness, er fannst í gestabók Jóns prófessors Helgasonar 1994, og er það samið í þeim hefðbundna stíl er hefur opnað Atla leið að íslenskum barnshjörtum. Sópranblástur Sigurðar er klassískur í djassmerkingu orðsins svo og spuni hans og Gunnars. Í Jólasveinunum ríkir aftur á móti hinn frjálsi djassspuni í barýtonleik Sigurðar, sem kenna má m.a. við Albert heitinn Ayler, en Bach er á sveimi í orgelleik Gunnars í upphafi. Klisjurnar frá því um sextíu eru kostulega skemmtilegar í þessu samhengi og maður minnist þess sem Alex Riel sagði um undirleik hans og Niels-Hennings á frjálsspunatónleikum Aylers í Jazzhuse Montmartre: ,,Við vissum ekkert hvað við áttum að spila svo við lékum Glade jul undir hjá honum. Hann átti ekki orð yfir frumlega hugsun okkar!"

Það getur verið erfitt að ná einhverju nýju útúr jafn einföldum og þrælspiluðum sálmum eins og Betlehemstvíburunum "barn oss fætt" og ,,bjart er yfir". Það fyrrnefnda endurhljómsetja þeir félagar og ,,ljá oss nýja heyrn" ekki síður en Berggreen hinn danski (Ó, Jesú bróðir besti) gerði er hann gaf þessu miðaldalagi lútersk klæði, en það síðarnefnda flakkar milli tóntegunda svo einfalt lagið gengur í endurnýjun lífdaga meðan á flutningi stendur.

Fjölmargir aðrir sálmar öðlast nýtt líf á Sálmum jólanna og kannski er upphafssálmurinn magnaðastur. Eftir að slegið hefur verið á kirkjuklukkuna frá Hálsi í Fnjóskadal hefur orgelið kraftbirting sálmsins aldna: Ist das der Leib, herr Jesu Christ (Ó Jesúbarn blítt) og sópranblástur Sigurðar hverfur til austurkirkjunnar og hinir balkönsku töfrar ríkja öðru ofar.

Á þessum diski blæs Sigurður flesta sálma í sópransaxófón og er gleðileg hversu góðu valdi hann hefur náð á því hljóðfæri - barýtonfærni sína sannaði hann okkur í Djúpinu, söngdansaskífunni er hann gaf út í september, og altóinn hefur hann haft á valdi sínu um langt árabil.

Gunnar Gunnarsson er frábær á þessum diski eins og hinum fyrri, en hlutverk hans er hið sama og Earl Hines á Weather bird með Louis Armstrong. Undirleikarans, sem er einleikaranum lífsnauðsyn, en á einnig sína glæsistundir í spuna.

Vernharður Linnet