Um sextíu manns sóttu kynningarfund á Siglufirði í gærkveldi þar sem kynnt var hættumat vegna ofanflóða.
Um sextíu manns sóttu kynningarfund á Siglufirði í gærkveldi þar sem kynnt var hættumat vegna ofanflóða.
Í GÆRKVÖLDI var almennur fundur á Siglufirði þar sem kynnt var mat á hættu vegna ofanflóða á Siglufirði. Á fundinn mættu um 60 manns. Fulltrúar Veðurstofu Íslands kynntu í stórum dráttum á hvaða forsendum umrætt hættumat er byggt.
Í GÆRKVÖLDI var almennur fundur á Siglufirði þar sem kynnt var mat á hættu vegna ofanflóða á Siglufirði. Á fundinn mættu um 60 manns. Fulltrúar Veðurstofu Íslands kynntu í stórum dráttum á hvaða forsendum umrætt hættumat er byggt. Kom skýrt fram í máli þeirra að þrátt fyrir að mannskæð snjóflóð hefðu aldrei orðið svo vitað væri þar sem núverandi byggð stæði, þá væri snjóflóðasagan stutt, og líta yrði til allt að 1-2 þúsund ára í því sambandi. Líkurnar á stórum snjóflóðum væru töluverðar vegna staðhátta og ekki væri hægt að byggja matið nema að litlu leyti á þekktri snjóflóðasögu.

Einnig fór fram kynning á fyrirhuguðum mannvirkjum sem draga eiga úr hættu á manntjóni vegna ofanflóða. Ljóst er að um töluverðar framkvæmdir er að ræða og og fýsti fundarmenn nokkuð að vita hver umhverfis- og sjónræn áhrif þessara mannvirkja yrðu.

Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt sýndi ýmsar skýringarmyndir af hugmyndum þeim sem hann hefur unnið í samvinnu við Þorstein Jóhannsson verkfræðing á Siglufirði. Hann dró ekki úr þeirri breytingu sem þessi mannvirki hefðu í för með sér fyrir landslag ofan byggðarinnar, en sagði að nýtt landslag skapaði nýja möguleika og benti jafnframt á hversu vel heppnuð núverandi varnarmannvirki væru, því að þau væru nú vinsælt útivistarsvæði á sumrin.

Tillögurnar að hættumatinu voru unnar af Veðurstofu Íslands á vegum hættumatsnefndar Siglufjarðar, en umhverfisráðherra skipaði nefndina í febrúar sem leið í samræmi við ákvæði reglugerðar. Þetta er annað hættumatið sem gert er, en búið er að gera slíkt mat fyrir Neskaupstað og unnið er að tillögum fyrir Seyðisfjörð, Eskifjörð og Ísafjörð.

Guðmundur Guðlaugsson, bæjarstjóri á Siglufirði, segir að í raun hafi ekki verið til neitt mat áður. Miðað hafi verið við ákveðna hættulínu og með hana í huga sé hún neðar en áður á tilteknum svæðum. Hins vegar breyti hættumatið sem slíkt engu því legið hafi fyrir hvað gera þyrfti og því hafi ákveðnar aðgerðir verið í gangi og þær haldi áfram í samræmi við tillögur ofanflóðasjóðs.

1997 fór fram frumathugun varna undir Strengsgiljum og Jörundarskál á Siglufirði í samstarfi við erlenda sérfræðinga. Árið eftir voru framkvæmdir vegna leiðigarða boðnar út og hafist handa um sumarið. Guðmundur Guðlaugsson segir að gert hafi verið ráð fyrir ákveðnum framkvæmdum 2001 til 2004 eða 2005 og sé áætlaður kostnaður á annan milljarð króna.

Siglufirði. Morgunblaðið.